Í Chikwawa héraði, verkefnasvæði Hjálparstarfs kirkjunnar í Malaví, er merkileg breyting að verða á högum fátækra bænda þar um slóðir. Birtingarmynd hennar eru geitur, fjórfætlingar sem í orðsins fyllstu merkingu geta bylt lífskjörum fólks sem býr við sára fátækt.

Einn verkþáttur í þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfsins, Makhwira Community Livelihood Resilience and Strengthening Project (MCLRS), felst í að fjölskylda sem lengi hefur haft fá úrræði til að bæta sinn hag fær til ræktunar fimm geitur – hafur og fjórar huðnur. Má nefna að geitur, sem voru oft nefndar kýr fátæka fólksins hér heima, henta vel aðstæðum í Malaví enda geta þær lifað á afar rýru landi og þurfa kjarnminna fóður en margir aðrir grasbítar.

Fyrir fólk sem býr við sárafátækt er það bylting að fá nokkrar geitur að gjöf.

Bættur hagur þeirrar fjölskyldu sem fær geitahjörð nær fljótt til annarra sem líkt á við um, því þegar þeirra litla hjörð gefur af sér afkvæmi þá er kiðlingunum deilt áfram til sveitunga þeirra, og svo koll af kolli. Þannig stuðlar velgengni eins bónda og fjölskyldu hans að velmegun samferðamanna hans og samfélagsins alls þegar vel gengur.

Það má segja að verkefnið taki á sig mynd lítils deilihagkerfis innan héraðsins. Má nefna dæmi frá því í fyrra þar sem í einu sveitarfélagi fengu sjö fjölskyldur geitahóp en að tiltölulega stuttu síðar voru fjölskyldurnar orðnar tíu sem stunduðu geitarækt á forsendum deiliræktunarverkefnisins. Alls voru geiturnar þá orðnar tæplega 50 og fjórtán þeirra kiðlingar úr upphaflegu úthlutuninni.

Blásið til sóknar

Maður er nefndur Jonas Kalonda, harðduglegur bóndi í Mitengo, einu þeirra þorpa í héraðinu sem verkefnið nær til. Hann fékk úthlutað fimm geitum síðla árs 2023 sem fljótt snéri hans lífi frá erfiðri varnarbaráttu til sóknar. Við úthlutun geitahjarðarinnar var honum gert að deila kiðlingum til nágranna síns Mörthu Mlabowa, sem var ofarlega á biðlista eftir kiðlingum. Hann stóð svo sannarlega við sitt og eftir rúmlega fimm mánuði hafði Martha fengið þrjár geitur frá Jonasi og aðrar tvær nokkrum vikum síðar.

Verkefni Hjálparstarfsins er unnið í samstarfi við Samband evangelískra kirkna í Malaví (Evangelical Association of Malawi, EAM) sem nýtur virðingar fyrir fagleg vinnubrögð í þróunarsamvinnu. Í umsögn samstarfsfólks Hjálparstarfsins hjá EAM breytti þetta lífi þeirra beggja til hins betra á aðeins nokkrum mánuðum. Segja þau að þetta sé til marks um hversu mikilvægt það sé að verkefnið skili ávinningi einstaklingsins áfram og varpi ljósi á mikilvægi samtryggingar og ábyrgðar einstaklingsins gagnvart samfélaginu í heild. Gæfa eins styrki þannig samfélagið í heild sem verður einn aðal hvatinn fyrir því að halda áfram svo fleiri og fleiri njóti ávaxtanna.

„Ég hef beðið lengi, lengi eftir tækifæri til að bæta líf fjölskyldunnar,“ segir Martha þakklát sem segir að draumur hafi ræst. Ég trúi því að erfiðleikar okkar séu að baki ef ég verð skynsöm og nýti tækifærið til að byggja upp stærri hjörð. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að stækka hjörðina mína og deila kiðlingum áfram til næsta bónda á biðlistanum,“ segir Martha. „Þá mun hans líf breytast eins og líf minnar fjölskyldu.“

Von og tækifæri

Verkefni Hjálparstarfsins og EAM er litið sem vonargeisli inn í bændasamfélagið í Chikwawa. Ekki breytir það eingöngu lífi einstakra bændafjölskyldna, að sögn umsjónarmanna EAM heldur valdeflir það samfélagið allt. Verkefnið sýni að gott skipulag og framsýni geti verið mikið hreyfiafl í samfélagi þar sem fátækt fólks er mikil.

Þegar geiturnar voru afhentar í þorpinu Mitengo vildi Jonas Kalonda koma þakklæti sínu á framfæri til aðstandenda verkefnisins, og sagði við það tækifæri:

„Við áttum lítið sem ekkert en nú hefur allt breyst. Verkefnið snýst ekki aðeins um geitur heldur miklu frekar um von og tækifæri, sem við höfðum ekki áður. Framtíð mín og fjölskyldu minnar er björt og okkur mun ekkert skorta aftur,“ sagði Jonas og má merkja af orðum hans hversu miklu er hægt að breyta þó framlagið sé ekki stórt í margra augum.

Leiðtogar innan þorpanna starfa með umsjónarmönnum EAM að því að allt gangi snurðulaust fyrir sig. Þeir segja að á næstu mánuðum muni fleiri og fleiri fá geitur til ræktunar og árangurinn veiti hópnum innblástur og hvatningu til góðra verka. Ef samfélagið vinni að sameiginlegu takmarki þá sé mögulegt að umbylta lífsskilyrðum fólks til lengri framtíðar.

Að deila banana

En verkefnið einskorðast ekki við geitaræktun. Önnur birtingarmynd þess er í bananaræktun á verkefnasvæðinu.

Lukia Chinyama er bóndi sem ræktar banana á landskika sem henni tilheyrir. Hún fékk um fjörutíu afleggjara bananaplöntunar og strax á fyrsta ári var uppskera hennar 11 fullþroskaðir bananaklasar, en á hverjum þeirra eru á milli 150 og 200 bananar. Hún hélt einum slíkum fyrir fjölskylduna sem var mikilvæg viðbót við daglegt mataræði fjölskyldunnar. Tíu klasa seldi hún hins vegar á bændamarkaði í þorpinu og uppskar 109.000 malavíska kvaka fyrir, en það eru 8.750 íslenskar krónur sem er ekki fjarri mánaðarlegum meðaltekjum bænda í Malaví. Sú upphæð breytir stöðu fátækrar fjölskyldu í Malaví umtalsvert.

Lukia hefur gefið græðlinga áfram til annarra fjölskyldna sem njóta góðs af. Verkefni Hjálparstarfsins hverfist um hálfgert deilihagkerfi sem hefur þegar sannað sig.

Því til viðbótar gat hún gefið tuttugu afleggjara bananaplöntunar til fimm fjölskyldna í sveitinni. Þær njóta ávaxta verkefnisins eins og Lukia og voru viljug til að stunda ræktun á forsendum verkefnisins en auðvelt er að fjölga plöntunni með að taka afleggjara, láta róta sig í vatni og koma svo fyrir í mold.

„Peningarnir sem ég fékk fyrir ávextina dugðu til að borga fyrir skólavist allra barnanna minna sem eru fjögur. Ég gat líka keypt mat fyrir heimilið og ég lagði svolitla upphæð inn í samfélagsbankann sem var stofnaður innan verkefnisins,“ segir Lukia.

Þegar aðstæður eru hagfelldar í sveitum Malaví er mögulegt að rækta allt á milli himins og jarðar. En náttúruöflin eru óvægin þar í landi og áföll tíð.

Styrkja