Barnaheill veittu í dag árlega viðurkenningu sína fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar hlaut viðurkenninguna en hún hefur um áratuga skeið barist fyrir hagsmunum barna sem búa við fátækt og er rödd hennar sterk í samfélaginu þegar kemur að því að tala fyrir málefninu.

Frá þessu segir í frétt samtakanna. Þar segir jafnframt:

Vilborg með viðurkenningu sína. Mynd/Barnaheill

„Vilborg hefur með störfum sínum aflað sér mikillar virðingar og er þekkt fyrir fagleg vinnubrögð. Hún nálgast börn og fjölskyldur þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu af mikilli virðingu. Það er ljóst að barátta hennar fyrir bættum hag þeirra sem búa við fátækt er henni hjartans mál og nær langt út fyrir að vera eingöngu starf hennar. Vilborg kom að stofnun Systkinasmiðjunnar á Íslandi en þar er lögð áhersla á mikilvægi þess að viðurkenna og vekja athygli á því mikilvæga hlutverki sem systkini barna með sérþarfir hafa í fjölskyldum og í samfélaginu. Þar er einnig skapaður vettvangur fyrir þau að fá upplýsingar og úrræði sem þau þurfa til að styðja við fjölskyldur sínar og sig sjálf. Þau fá tækifæri til að hitta önnur systkini í skipulögðu og skemmtilegu umhverfi, ræða við jafnaldra sína á jákvæðan hátt um margt sem tengist því að eiga systkini með sérþarfir.“

 

Afhending viðurkenningarinnar fór fram á Grand hótel í Reykjavík. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, formaður Barnaheilla, flutti ávarp og tilkynnti hver hlyti viðurkenninguna. Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp og afhenti viðurkenninguna. Nemendur úr Hagaskóla fluttu atriði sitt úr Skrekk, hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkur. Indriði Nökkvi Þóreyjarson úr stjórn Ungheilla – ungmennaráðs Barnaheilla flutti ávarp og Bergrún Íris Sævarsdóttir úr stjórn Barnaheilla stýrði athöfninni. 

Styrkja