Þann 2. desember síðastliðinn skrifuðu utanríkisráðuneytið og Hjálparstarf kirkjunnar undir samning um styrk ráðuneytisins við samþætt þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfsins í Kebribeyahhéraði í Eþíópíu árin 2021 – 2024. Í samningnum felst styrkur ráðuneytisins að upphæð 36.240 þúsund krónur árlega í þau fjögur ár sem verkefnið varir. Meginmarkmið með verkefninu er aukinn viðnámsþróttur samfélagsins gegn loftslagsbreytingum og bætt lífsviðurværi sjálfsþurftabænda á svæðinu. Heildarverkefniskostnaður er áætlaður 181.200. þúsund krónur eða 45.300 þúsund á ári.

Verkefnið er unnið með sjálfsþurftabændum í Kebribeyahhéraði í Sómalífylki Eþíópíu sem kljást við afleiðingar loftslagsbreytinga á miklu þurrkasvæði. Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins er framkvæmdaraðili og telur markhópurinn samtals um 21.200 manns. Meginmarkmið verkefnisins eru  aukið fæðuöryggi og aukinn viðnámsþróttur samfélagsins, bætt heilsufar með auknu aðgengi að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu sem og aukin völd og réttindi kvenna á svæðinu. Í verkefninu er gert ráð fyrir að bora fyrir vatni og aukin áhersla er lögð á að tryggja réttindi kvenna og stúlkur njóta aukins stuðnings meðal annars til að stunda nám.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur verið í þróunarsamvinnu í Sómalífylki frá árinu 2008 en fært sig um set í fylkinu þegar árangur hefur náðst í einu héraði til að starfa að uppbyggingu með bændum annars staðar í fylkinu. Landrof og eyðimerkurmyndun einkenna svæðið og er það rakið til öfga í veðri sem verða æ meiri. Sjálfsþurftarbændur fá þar aðstoð svo þeir geti aukið fæðuöryggi sitt með umhverfisvernd og bættum aðferðum í landbúnaði. Brunnar eru grafnir og þar sem það er ekki mögulegt eru grafnar vatnsþrær fyrir regnvatn.

Konur á svæðinu hafa tekið þátt í sparnaðar- og lánahópum og fengið fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hafa margar kvennanna hafið rekstur og reka litla búð, stunda geita- og hænsnarækt og rækta grænmeti. Konur sem hafa tekið þátt í verkefninu tala um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt á verkefnasvæðunum áður en samvinnan hófst.

Hjálparstarfið þakkar utanríkisráðuneytinu fyrir traust og frábæran stuðning við starfið!

RÚV sýndi nýverið fræðsluþátt um Hjálparstarf kirkjunnar en í þættinum var meðal annars fjallað um verkefni Hjálparstarfsins í Eþíópíu. Þáttinn má nálgast hér: https://www.ruv.is/sjonvarp/dagskra/ruv/2020-12-08/5157635

Styrkja