Fyrir síðustu jól fengu 1.783 fjölskyldur um allt land aðstoð hjá Hjálparstarfinu og samstarfsaðilum. Árið 2021 leituðu 1.570 fjölskyldur til okkar en þetta er aukning um 13,5%.  

Erfið staða fólks á lífeyri og lágtekjufólks hefur ekki farið fram hjá neinum. Verðbólga, verðhækkanir og hækkaður kostnaður vegna húsnæðis gerir stöðu hinna verst settu enn erfiðari. Af þeim sem sóttu um aðstoð til okkar eru 49,6% á almennum leigumarkaði og 46% eru einstæðir foreldrar (af einstæðum foreldrum eru 84% einstæður mæður). 35% eru á örorkulífeyri, 20% á framfærslu sveitarfélaganna og 8% eru á atvinnuleysisbótum.

Það stefnir í óefni ef kostnaðarhækkanir halda áfram og ekkert er að gert. Þessir hópar sem ég nefni munu þá standa frammi fyrir enn erfiðari stöðu. Yfirvöld verða að bregðast við með einum eða öðrum hætti. Hjálparstarfið heldur áfram að veita neyðaraðstoð en ef fer sem horfir verður erfitt að svara þörfum allra sem hingað leita.

Alþjóðleg samvinna

Það er mikill styrkur fyrir Hjálparstarfið að vera aðili að Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna (ACT Alliance). Innan vébanda þessara alþjóðlegu samtaka eru 145 sjálfstæð samtök sem starfa í 127 löndum. Þegar náttúruhamfarir eiga sér stað er nánast öruggt að einhver af systursamtökum Hjálparstarfsins er á staðnum. Það átti til dæmis við þegar jarðskjálftarnir miklu riðu yfir Tyrkland og Sýrland í byrjun febrúar. Hjálparstarfið hefur þegar sent framlag til systursamtakanna Middle East Council of Churches (MECC) sem voru á staðnum og hófu neyðaraðstoð á fyrsta degi. Þetta er gott dæmi um hvernig alþjóðlegt samstarf gerir okkur kleift að styðja björgunarstarf á staðnum í samvinnu við heimamenn – sem hefst tafarlaust eftir að hamfarir ríða yfir.

Grátt ofan á svart

Eftirlifendur náttúruhamfaranna í Tyrklandi og Sýrlandi hafast nú við á götum úti eða í neyðarskýlum. Nauðsynlegt er að hlúa að slösuðum, skjóta skjólshúsi yfir þá sem hafa misst heimili sín og miðla hjálpargögnum til þeirra sem hafa misst aleigu sína. Fram hefur komið að þegar hafa yfir 50.000 manns fundist látin. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, (WHO) telur að 26 milljónir manna í löndunum tveimur eigi um sárt að binda og þurfi á neyðaraðstoð að halda. Staðan á jarðskjálftasvæðum í Sýrlandi er mjög erfið, eyðileggingin gífurleg og milljónir manna hafa hvergi höfði sínu að halla. Aðstæður voru nógu slæmar fyrir eftir 12 ára stríð en jarðskjálftinn hefur bætt gráu ofan á svart.

Það er ljóst að þörfin er mikil. Getur þú lagt starfi okkar lið með því að greiða valgreiðslu í heimabanka eða styrkja starfið eftir öðrum leiðum?

Bjarni Gíslason,
framkvæmdastjóri

Ef þú vilt lesa um innlent sem erlent starf Hjálparstarfsins má finna nýja fréttabréfið hér. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Viltu styrkja starfið?

 

Styrkja