Zam, stúlkan sem prýðir forsíðu nýs fréttabréfs Hjálparstarfsins, býr ásamt móður sinni og bróður í pínulitlum skúr í fátækrahverfi í Kampala, höfuðborg Úganda. Fátæktin þar er nístandi. Bróðir Zam byrjar daginn á því að ganga í um klukkutíma í skólann þar sem hann er þar til rökkva tekur en þá gengur hann aftur heim. Nestið hans fyrir daginn er hnefafylli af hnetum.

Félagsráðgjafi og fræðslufulltrúi Hjálparstarfsins hittu Zam heima hjá henni fyrir skemmstu og gengu með henni til smiðju UYDEL þar sem hún er nýbyrjuð að læra hárgreiðslu. UYDEL er samstarfsaðili Hjálparstarfsins sem rekur smiðjur fyrir unglinga sem búa við sára fátækt svo þau geti lært iðn til að sjá sér farborða, ásamt því að læra um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Námið í smiðju UYDEL veitir Zam tækifæri til að sjá fyrir sér á mannsæmandi hátt.

Zam var hlédræg og döpur að sjá þegar við komum í heimsókn enda er saga hennar erfið. Foreldrar hennar hafa ekki haldið heimili saman og hún bjó hjá pabba sínum til 13 ára aldurs þegar mamma hennar gerði kröfu um að fá hana til sín. Mæðgurnar hafa hins vegar ekki náð að tengjast tilfinningaböndum og mamma Zam beitir hana hörðu. Zam gekk illa í námi, hætti að sækja skólann og hafði ekki fundið sér vinnu. Nágrannar hennar í hverfinu bentu starfsfólki UYDEL á að hún þyrfti á aðstoð að halda.

Geta ekki nestað börnin sín

Deborah Sarah Nakirijja er einn félagsráðgjafa UYDEL. Hún segir að allt of mörg börn og unglingar í Kampala flosni upp úr skóla vegna þess að foreldrar þeirra hafa ekki efni á að nesta þau. Svöng börnin geti ekki einbeitt sér, gangi illa og hætti að mæta. Þá sé hætt við því að þau leiðist út á glæpabrautina til að hafa í sig og á. Hún segir að UYDEL hvetji stjórnvöld til þess tryggja börnum máltíð í skólanum en að stjórnvöld segi að til þess skorti fjármagn.

Í skúrnum sem Zam og fjölskylda hennar býr í og fyrir utan hann var mikið rusl og opnir skolpskurðir sem við þurftum að hoppa yfir til að komast leiðar okkar. En það var jafnframt mjög mikið líf í hverfinu og fólkið tók okkur útlendingunum vel.

Inni í skúrnum var sófi, stóll og lítið sjónvarpstæki en líka hæna með unga sína sem trítluðu yfir tær okkar þar sem við sátum ogspjölluðum saman. Flestir innanstokksmunir héngu uppi á vegg en oft flæðir inn í kofaskriflin í hverfinu þegar rignir. Bak við stofurýmið sem er um 3 fermetrar að stærð var svo fleti til að sofa á. Fleiri voru vistarverur ekki. Neysluvatnið er sótt í hrörlegan brunn en kamar stendur hátt í hverfinu til að koma í veg fyrir að flæði inn í hann þegar rignir. Rusli henda íbúarnir í skurði við hlið kofanna enda engin sorphirða í hverfinu.

Hvað dreymir þig um?

Áður en Zam getur mætt í smiðju UYDEL á morgnana þarf hún að sækja vatn, koma bróður sínum af stað í skólann, þrífa skúrinn og hjálpa mömmu sinni að setja upp sölubás þar sem hún selur banana og grænmeti til að sjá fyrir fjölskyldunni.

Draumur Zam hefur ræst og hún vinnur nú við hárgreiðslu. Mynd/Þorkell Þorkelsson

Þegar við gengum með Zam að smiðju UYDEL í Rubagahverfi Kampala spurðum við hana um framtíðardrauma og hún svaraði því til að það væri að lifa venjulegu heilbrigðu lífi og starfa við hárgreiðslu. Félagsráðgjafar UYDEL nota einmitt sömu aðferð og félagsráðgjafar Hjálparstarfsins beita í starfi hér heima en það er að spyrja „hvað dreymir þig um?” og liðsinna svo fólki til þess að sú framtíðarsýn geti ræst án þess að taka ábyrgðina frá einstaklingnum á líðan sinni og hegðun.

 

 

 

Ef þú vilt lesa um innlent sem erlent starf Hjálparstarfsins má finna nýja fréttabréfið hér. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Viltu styrkja starfið?

Styrkja