
Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í Sómalífylki í Eþíópíu en landið er í 180 sæti af 193 á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (2023) hvar Ísland er í einu af fimm efstu sætunum ár hvert.
Í Eþíópíu sem er ellefu sinnum stærri en Ísland að flatarmáli búa nú yfir 130 milljónir íbúa. Landinu er skipt upp í níu fylki og er Sómalífylki næststærst þeirra eða 279.252 ferkílómetrar. Í fylkinu búa nær sex milljónir íbúa.
Í Sómalífylki ógna þurrkar og og sífellt óstöðugra veðurfar fæðuöryggi fólks. Íbúar fylkisins hafa flestir lifibrauð af kameldýra- og nautgriparækt, sauðfjár- og geitarækt en í sífellt meira mæli af korn- og grænmetisræktun einnig. Þegar lítið sem ekkert rignir á hefðbundnum regntíma verður uppskeran hins vegar rýr og fátæktin sífellt sárari.
Samfélagið hefur mjög takmarkað aðgengi að vatni, rafmagni, mörkuðum og lánsfé enda er fæðuöryggi mjög lítið og á þurrkatímum er fólkið háð mataraðstoð stjórnvalda og hjálparsamtaka. Dýrasjúkdómar eru tíðir og dýralæknisþjónusta af skornum skammti.
Landrof er mikið á ræktarlandi og almennt hafa bændurnir ekki verkþekkingu til að koma í veg fyrir frekari eyðimerkurmyndun. Í neyð sinni heggur fólkið niður tré og runna til að selja sem eldivið og eykur þannig enn á hættuna á landrofi. Fólk í dreifbýli gengur örna sinna á víðavangi og aðstaða til handþvotta er af mjög skornum skammti.
Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með skilvirkum aðferðum í landbúnaði og umhverfisvernd og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.
Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF DWS) í Eþíópíu með dyggum stuðningi frá einstaklingum og utanríkisráðuneytinu frá árinu 2008 en á sautján árum hefur aðstoðin náð beint og óbeint til fleiri en 155.000 einstaklinga á víðfeðmu landsvæði og breytt lífi þeirra til hins betra.
Brunnar hafa verið grafnir en þar sem það er ekki mögulegt eru grafnar vatnsþrær fyrir regnvatn. Stíflur og veggir í árfarvegum eru reist til að halda regnvatni í farvegi og hefta eyðimerkurmyndun, nýjar og þurrkþolnari korntegundir eru kynntar til sögunnar sem og skilvirkari ræktunaraðferðir og betri verkfæri. Dýraliðar fá þjálfun í að meðhöndla dýrasjúkdóma og bólusetja búfé. Þá lærir fólkið að steypa sparhlóðir sem spara eldivið og minnka reykmengun við eldamennsku.
Konur taka þátt í sparnaðar- og lánahópum og fá fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hefja margar kvennanna að reka litla búð, stunda sauð- og geitfjárhald hænsnarækt og rækta grænmeti. Konur sem taka þátt í verkefninu hafa talað um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt frelsi á verkefnasvæðunum áður.
Meginmarkmið með verkefnisfasa sem hófst í janúar 2021 og lauk í desember 2024 voru að auka þolgæði samfélagsins og getu þess til að bregðast við hamförum og hamfarahlýnun, að bæta lífsafkomu og fæðuöryggi sjálfsþurftarbænda á svæðinu, að bæta aðgengi íbúanna að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu og að stuðla að auknu jafnrétti með valdeflingu kvenna og stúlkna.
Aðstoðin náði með beinum hætti til þeirra 2.650 bændafjölskyldna sem bjuggu við sárustu fátæktina í 10 þorpskörnum í Kebribeyah héraði þar sem búa samtals um 21.000 manns. Áhersla var lögð á að ná til atvinnulauss ungs fólks, kvenna og barna. Áhersla var einnig lögð á að ná til fólks með fötlun.
Verkþáttur um valdeflingu kvenna var afar vel heppnaður. Starfsfólk og þátttakendur verkefnisins hafa lýst þeirri upplifun aftur og aftur í samtölum við Hjálparstarfið. Konurnar sem taka þátt í verkefninu gera mikið úr litlu. Þær greiða lánin til baka í lang flestum tilfellum og njóta ávaxtanna sjálfar. Karlarnir eru ánægðir með að konurnar fái þetta tækifæri og virðast ekki skipta sér mikið af því hvernig lánin eru nýtt né fara þeir fram á að fá afraksturinn til sín.
Í verkefnisfasa sem hófst í byrjun árs 2025 og lýkur í árslok 2028 verður unnið með 3.485 bændafjölskyldum, samtals um 23.000 manns, í fjórum sveitarfélögum í Awbarehéraði að því að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn loftslagsbreytingum og bæta lífsviðurværi fólksins. Í heild eru íbúar í 59 sveitarfélögum Awbarehéraðs um 508.000 talsins.
Awbarehérað er 3.862 ferkílómetrar að flatarmáli á miklu þurrkasvæði í Fafansýslu og á landamæri að Sómalíu. Á svæðinu aðhefst meðal annars fólk sem er á vergangi vegna átaka annars staðar í Eþíópíu og fólk sem flúið hefur yfir landamærin frá Sómalíu. Hjálparstarfið sendi fjárframlag til mannúðaraðstoðar á svæðinu vegna þurrka árið 2022.
Áherslur í nýjum verkefnisfasa eru svipaðar og í nýloknum verkefnisfasa í Kebrebeyahhéraði en nýbreytni er að nú verða bændur tryggðir gegn uppskerubresti og er það einn liður af fjórum í samþættri nálgun til þess að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn loftslagsbreytingum. Bændur fá fræðslu um skilvirkar aðferðir í landbúnaði og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Þeir fá þurrkþolin fræ til ræktunar og grænmetisfræ til að auka framleiðni í landbúnaði. Bændur fá þjálfun og tól til landverndar og gerðar verða tvær vatnsþrær (birkur) til að auka aðgengi að vatni.
Konur á svæðinu fá þjálfun og aðstoð við að mynda sparnaðar- og lánahópa en þeir stuðla að aukinni tekjuöflun og þar með aukinn velsæld fjölskyldnanna. Konur og ungt fólk fá sérstaka aðstoð við að koma sér upp hænsnarækt til tekjuöflunar og ungt fólk fær tækifæri til að læra iðn sér til framfærslu og styrk til að koma sér upp aðstöðu til tekjuöflunar.
Almannavarnir verða bættar með því að koma upp viðvörunarkerfi. Staðaryfirvöld og fólk sem tekur þátt í verkefninu fær þjálfun til að takast á við þurrka og flóð. Ungt fólk verður hvatt til að leiða vinnu við að rækta trjágræðlinga til að planta á viðkvæmum svæðum og stuðla þannig að landvernd.
Heildarkostnaður við verkefnið starfsárið 2024-2025 nam rúmlega 54,5 milljónum króna. Á starfsárinu 2023 – 2024 nam kostnaður við verkefnið 51 milljónum króna.