Hjálparstarf kirkjunnar veitir mannúðaraðstoð í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, og systursamtök og -stofnanir í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, sem samhæfir mannúðaraðstoð með hjálparstofnunum Sameinuðu þjóðanna og starfar eftir ströngustu stöðlum um faglegt hjálparstarf.

Rammasamningar Hjálparstarfs kirkjunnar og utanríkisráðuneytisins voru undirritaðir árið 2022 en þeir hverfast um stuðning ráðuneytisins við verkefni Hjálparstarfsins á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Í mars síðastliðnum undirrituðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, og Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins, nýjan rammasamning um samstarf til fjögurra ára, frá 2025 til 2028. Samkvæmt samningum leggur ráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind verkefni.

Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna stríðsátaka

Lýðfrelsisfylking Tigray og stjórnvöld í Eþíópíu féllust á vopnahlé í lok árs 2022 sem hefur haldið til þessa dags. Borgarastríðið í Tigray hafði þá staðið óslitið í tvö ár en við undirskrift var samningalota deiluaðila búin að standa í áratug, sem er til marks um hversu þrálátar deilur fylkinganna tveggja hafa verið.

Átökin hafa leikið þetta næst fjölmennasta ríki Afríku grátt. Tölur eru á reiki en mat alþjóðastofnana er hins vegar að um 600.000 almennra borgara liggi í valnum. Þar af er talið að sex af hverjum tíu hafi dáið úr hungri enda var hungurvofunni beitt markvisst sem vopni af stjórnarhernum. Þá eru ótaldir þeir sem létu lífið eða særðust í beinum átökum og milljónir manna sem hröktust frá heimilum sínum.

Á meðan átökunum stóð einangruðu eþíópísk stjórnvöld Tigrayfylki nær algjörlega og því var aðgangur hjálparsamtaka mjög takmarkaður. Eftir að vopnahléið var sett á áttu  forsvarsmenn hjálparsamtaka hins vegar kost á því að ferðast um svæði þar sem áður var útilokað að fara um. Það átti við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF DWS)  sem veitti aðstoð vegna borgarastríðsins frá upphafi þess í nánu samráði við stjórnvöld og önnur mannúðarsamtök.

Í febrúar 2022 sendi Hjálparstarf kirkjunnar 22 milljónir króna til mannúðaraðstoðar LWF DWS í Amhara nágrannafylki Tigray en utanríkisráðuneytið veitti 20 milljón króna styrk til verkefnisins utan rammasamnings.

Markmið verkefnisins, sem varði frá júní 2022 – desember 2023, var að bregðast við alvarlegum fæðuskorti á svæðinu vegna átaka, þurrka og uppskerubrests.

Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna þurrka

Átök, þurrkar og fátækt herja á Eþíópíu og yfir 24 milljónir íbúa hafa undanfarin ár þurft aðstoð eingöngu vegna þurrkanna. Í júní árið 2022 sendi ACT Alliance út neyðarbeiðni vegna þurrka í þremur ríkjum; Sómalíu, Keníu og Eþíópíu. Strax í kjölfar hennar sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæplega 22 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðarinnar og nam styrkur utanríkisráðuneytisins til verkefnisins 20 milljónum króna. Framlag Íslendinga var eyrnamerkt mannúðaraðstoð Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF/DWS í Oromía- og Sómalí-fylkjum í Eþíópíu. Í Sómalífylki náði mannúðaraðstoð LWF meðal annars til Kebri Beyah héraðs en þar er stærsta verkefni Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu.

Lútherska heimssambandið hefur starfað í Eþíópíu frá árinu 1971 og veitt þar bæði mannúðaraðstoð og starfað í þróunarsamvinnu. LWF hefur m.a. aukið aðgengi fólks að vatni og hreinlætisaðstöðu og útvegað fólki húsaskjól, mat, búsáhöld og reiðufé til nauðþurfta. Fólkið í fylkjunum tveimur býr við alvarlegan fæðuskort og búfénaðurinn fellur úr hor vegna þurrka. Aðgengi að vatni er þar afar takmarkað sem leiðir til þess að fólkið yfirgefur iðulega heimkynni sín og fer á vergang. Heilsufar versnar og börn sækja ekki skóla.

Verkefninu sem Hjálparstarfið átti aðild að náði til 72.000 íbúa landsins, bæði heimafólks og fólks á vergangi á þeim átján mánuðum sem verkefnið stóð yfir, eða frá júnímánuði 2022 til ársloka 2023. Markmið verkefnisins voru að bjarga mannslífum og koma í veg fyrir hungursneyð og alvarlega vannæringu fólksins sem býr á verstu þurrkasvæðunum. Þá var veittur sálfélagslegur stuðningur en stærstu kostnaðarliðir verkefnisins voru að útvega vatn og hreinlætisaðstöðu og að tryggja fæðuöryggi fólksins.

Hvað starfssvæði Hjálparstarfsins í Sómalífylki varðar þá var um verstu þurrka að ræða í fjóra áratugi. Hundruð þúsunda bættust við tölu þeirra sem voru þegar á vergangi innan svæðisins og milljónir manna bættust við hóp þeirra sem þurfa aðstoð við að brauðfæða sig. Stór hluti vandans sem langvarandi þurrkar skapa er að búsmali fólksins á svæðinu hríðféll og er þá sama hvort um geitur, sauðfé eða nautgripi er að ræða.

Samkvæmt Eþíópísku heilbrigðisstofnuninni (EPI) braust kólera einnig út á tveimur aðskildum svæðum í Sómalífylki og var um hliðarverkun þurrkanna að ræða. Þá gripu bændafjölskyldur til þess örþrifaráðs að leggja sér útsæði sitt til munns. Þegar allt er samantekið mátu stjórnvöld og hjálparsamtök stöðuna svo að vegna þrálátra þurrka, mögulega að stórum hluta vegna loftslagsbreytinga, hafi staða íbúa á stórum svæðum innan Eþíópíu verið afar ótrygg.

Í heild sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæpar 33 milljónir króna til systursamtaka sinna í Eþíópíu vegna verkefnisins á árinu 2022. Tuttugu og tveggja milljóna króna framlag í júlí og auk þess tæplega ellefu milljóna króna framlag í desember. Þetta var mögulegt með tilstyrk utanríkisráðuneytisins sem lagði til 30 milljónir króna.

Frá því að Rússland réðst inn í Úkraínu þann 24. febrúar 2022 hafa tugir þúsunda almennra borgara fallið í átökunum, um sjö milljónir hafa flúið frá Úkraínu en um fjórar milljónir eru á vergangi innanlands. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu, hreinu vatni og menntun er skert á átakasvæðum og brýn þörf fyrir neyðaraðstoð, sálrænan stuðning og uppbyggingu eyðilagðra innviða er viðvarandi.

Systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, hafa veitt stríðshrjáðum Úkraínubúum mannúðaraðstoð allt frá upphafi innrásarinnar. Starfið hefur farið fram jafnt í Úkraínu sem og í nágrannaríkjum sem hafa tekið á móti fólki á flótta undan átökunum.

Hjálparstarf kirkjunnar hóf neyðarsöfnun meðal almennings strax í kjölfar innrásarinnar og hefur síðan sent fjárframlög til mannúðaraðstoðar Hjálparstarfs Lútherska Heimssambandsins, LWF DWS, við stríðshrjáða í Úkraínu og við flóttafólk frá Úkraínu í Póllandi.

Frá mars 2022 til loka febrúar 2025 náði aðstoð Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, í Úkraínu og Póllandi til hátt í 162 þúsund einstaklinga. Í fyrstu fólst aðstoðin mikið til í því að hjálpa fólki að komast yfir landamæri Úkraínu og Póllands á öruggan hátt. Greitt var fyrir fargjald í rútur, fólki voru færðar samlokur og annað matarkyns. Börn og fullorðnir fengu teppi og hreinlætisvörur.

Lútherska heimssambandið kom auk þess á stofn fjöldahjálparstöðvum í Póllandi þar sem flóttafólkið fékk reiðufé og sálfélagslegan stuðning. Miðstöðvarnar þjónuðu einnig sem athvörf fyrir konur og börn og sérstök áhersla var lögð á að tryggja aðgengi og öryggi fólks með fötlun. Börnin fengu sérstakan stuðning og aðstoð við nám.

Í Úkraínu hafa fleiri tugir þúsunda fengið reiðufé fyrir nauðþurftum en sérstök áhersla hefur verið lögð á að einstaklingar með fötlun nytu aðstoðar. Hátt í tvö þúsund einstaklingar hafa fengið inneignarkort fyrir vetrarfatnaði og tæplega fjögur þúsund hafa fengið aðstoð við lyfjakaup.

Um 20.000 einstaklingar í Úkraínu hafa fengið hreinlætisvörur og átta þúsund fengið mataraðstoð. Þá hafa 250 nemendur í Úkraínu fengið stuðning og 7.300 fjölskyldur fengið húsbúnað. Viðgerðir hafa farið fram á 360 neyðarvarnarskýlum og 12.000 manns hafa fengið aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu.

Á tímabilinu apríl 2022 til júní 2025 lagði Hjálparstarf kirkjunnar alls 67,2 milljónir króna til mannúðaraðstoðar Lútherska heimssambandsins við stríðshrjáða íbúa Úkraínu. Er þar meðtalinn styrkur utanríkisráðuneytisins, 40 milljónir króna, sem og 500 þúsund króna framlag Þroskahjálpar.

Mannúðaraðstoð í Sýrlandi

Í júlí 2021 sendi Hjálparstarf kirkjunnar um 10.7 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi. Átök höfðu þá geisað í landinu í rúman áratug en kórónuveirufaraldurinn enn aukið á sára neyð fólksins þar. Að mati Sameinuðu þjóðanna þurftu um ellefu milljónir íbúa á aðstoð að halda og rann fjárframlagið til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins sem leggur áherslu á að vernda líf og heilsu íbúanna og að veita börnum jafnt sem fullorðnum sálfélagslegan stuðning.

Áhersla er lögð á að hlúa að börnum, eldra fólki og sjúklingum og að aðstoða fjölskyldur við að koma undir sig fótunum á ný.

Framlagið var að meðtöldum stuðningi utanríkisráðuneytisins sem veitti Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð tíu milljónir króna. Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi ráðuneytisins, sent fjárframlag til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga sem nemur rúmlega 118 milljónum króna.

Jarðskjálftar í Tyrklandi og Sýrlandi

Aðfaranótt mánudagsins 6. febrúar 2023 riðu öflugir jarðskjálftar yfir landamærahéruð Tyrklands og Sýrlands. Hjálparstarf kirkjunnar í Mið-Austurlöndum (MECC), sem eru systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar á staðnum, hóf strax mat á því hvernig bregðast mætti við hamförunum með sem skilvirkustum hætti. Á sama tíma hóf MECC að dreifa  hjálpargögnum; mat, lyfjum, teppum og hlýjum klæðnaði.

Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi hóf neyðarsöfnun um sólarhring eftir að jarðskjálftarnir riðu yfir en öllum var ljóst að hamfarirnar voru af þeirri stærðargráðu að alþjóðleg neyðaraðstoð væri aðkallandi. Alls er nú talið að hamfarirnar hafi haft alvarlegar afleiðingar á líf 25 milljóna íbúa í Tyrklandi og Sýrlandi en samkvæmt Sameinuðu þjóðunum fórust í þeim á milli 50.000 og 60.000 manns. Tala slasaðra var nálægt 130.000 manns. Ónýtar og illa farnar byggingar voru taldar í hundruðum þúsunda og mikill fjöldi fólks missti heimili sín auk þess sem innviðir á jarðskjálftasvæðunum fóru illa.

Þann 30. mars 2023 sendi Hjálparstarf kirkjunnar rúmar 25 milljónir króna til verkefna MECC við að veita fórnarlömbum jarðskjálftanna í Sýrlandi neyðaraðstoð. Upphaflega stóð til að leggja til ellefu milljónir króna en hálfum mánuði eftir að náttúruhamfarirnar riðu yfir var ljóst að neyð fólksins væri enn meiri en leit út fyrir í upphafi. Því ákvað Hjálparstarfið að hækka framlagið sem var að meðtöldum 20 milljóna króna styrk utanríkisráðuneytisins til verkefnisins.

Mannúðarverkefni MECC í Sýrlandi lauk í apríl 2025. Veitt aðstoð MECC, samstarfsaðila Hjálparstarfsins, hafði náði til um 48.000 íbúa Sýrlands. Hafði MECC dreift fatnaði, teppum, matarkörfum, lyfjum og hreinlætisvörum ásamt því að gera við kirkjubyggingar og löskuð bænahús. Þá stóð MECC fyrir viðgerð á ellefu skólabyggingum svo fleiri en 4.000 nemendur gátu aftur hafið nám. MECC gerði auk þess við 30 íbúðabyggingar svo fjölskyldur gætu snúið aftur heim eftir hamfarirnar.

MECC skipulagði auk þess uppbótarkennslustundir fyrir grunnskólanemendur og dreifði námsgögnum, hreinlætisvörum, fatnaði og sólarrafhlöðuluktum til nemenda ásamt því að veita börnunum sálfélagslegan stuðning og halda úti barnavernd.

Unnið var að því að koma upp hreinlætisaðstöðu með fólkinu sjálfu og sameiginlegum þvottahúsum sem drifin voru áfram með sólarrafhlöðum. Þá var sólarrafhlöðukerfi sett upp í fjöldahjálparskýlum og fólkið fékk reiðufé fyrir nauðsynjum. Hátt í þrjú hundruð fjölskyldur fengu reiðufé fyrir leiguhúsnæði á meðan þær biðu þess að komast aftur heim til sín og starfsfólk sem vann að verkefnum MECC fékk laun fyrir vinnu sína sem dugði þeim til framfærslu.

Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi utanríkisráðuneytisins, sent fjárframlag til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga sem nemur rúmlega 143 milljónum króna og er sú upphæð að meðtöldu 25 milljóna króna framlagi Hjálparstarfsins vegna hamfarajarðskjálftanna í febrúar 2023.

Hitabeltisstormurinn Freddy sem barði á suðurhluta Malaví um miðjan mars 2023 skildi eftir sig slóð eyðileggingar og manntjóns. Stormurinn hafði áhrif á líf 2,3 milljóna manna. Innviðir stórskemmdust víða um landið sunnanvert og vel á sjöunda hundrað þúsund manns hraktist frá heimilum sínum.

Í kjölfar hamfaranna ákvað Hjálparstarf kirkjunnar að ganga til samstarfs við systurstofnanir sínar í Noregi (NCA) og Danmörku (DCA) um brýna neyðaraðstoð í Chikwawa-héraði þar sem Hjálparstarfið stendur að langtímaverkefni í þróunarsamvinnu.

Neyðaraðstoð Hjálparstarfsins vegna hitabeltisstormsins er lokið en víða í landinu stórskemmdust opinberar byggingar; skólar, sjúkrahús sem og samgöngumannvirki. Eins raforkumannvirki, vatnsveitukerfi, uppskera tapaðist og ræktarland eyðilagðist í stórum stíl. Það gerir stöðu margra enn alvarlegri þegar til lengri tíma er litið en tugþúsundir hektara ræktarlands skoluðust burt í flóðunum.

Þungamiðja neyðaraðstoðar Hjálparstarfsins var í Chikwawahéraði, eins og áður sagði vegna þróunarsamvinnuverkefnisins sem hófst í ársbyrjun 2023. Í ljósi hamfaranna er ástæða til að hnykkja á tilgangi þess verkefnis sem er að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn öfgum í veðri af völdum loftslagsbreytinga og tryggja lífsviðurværi og fæðuöryggi fólks eins vel og mögulegt er.

Uppbygging áveitukerfis í Chikwawa

Hjálparstarf kirkjunnar ákvað á vormánuðum 2025 að styrkja nýtt verkefni í Malaví sem tengist ofansögðu bæði beint og óbeint. Um var að ræða uppbyggingu á Mlongosola – Tithandizane áveitukerfinu í sveitarfélaginu TA Makhwira á verkefnasvæði Hjálparstarfsins í Chikwawa héraði.

Að verki loknu mun áveitan sjá 150 bændafjölskyldum fyrir vatni fyrir rúmlega sjö hektara ræktarlands. Þegar verkefnið hófst náði áveitan aðeins að sjá 60 bændum fyrir vatni sem nýttist á aðeins lítinn hluta þess ræktarlands. Verkefnið er unnið í samstarfi við Samband evangelískra kirkna í Malaví (Evangelical Association of Malawi, EAM). Alls lagið Hjálparstarf kirkjunnar til 7,6 milljónir króna til verkefnisins en áætluð verklok eru innan ársins 2025.

Svæðið sem um ræðir var gert hæft til ræktunar árið 2015 í samstarfi við írsku hjálparsamtökin Irish Aid. Frá þeim tíma hafa bændur ræktað baunir, maís, sætar kartöflur og margar tegundir grænmetis. Hverjum bónda var úthlutað skika sem var tíu sinnum fimmtíu metrar að stærð, en svæðið allt er 7,5 hektarar að stærð. Ef allt gengur að óskum sjá starfsmenn EAM fyrir sér að í framtíðinni megi rækta allt að fimmtán hektara lands sem gefur mikla möguleika fyrir bændur og byggir undir velmegun fjölskyldna þeirra á stóru svæði í héraðinu.

Ýmis áföll hafa hins vegar takmarkað notkunarmöguleika svæðisins. Miklar rigningar árin 2018, 2019 og 2021 hafa ítrekað spillt fyrir því sem byggt var upp en stærsta áfallið voru náttúruhamfarir árið 2023 þegar hitabeltisstormurinn Freddy reið yfir. Eftir þessi áföll höfðu innviðir áveitukerfisins orðið fyrir miklum skemmdum og átti það við um inntak, varnargarða, skurði og vatnsleiðslur. Til bráðabirgða hafa litlar vatnspumpur verið nýttar til að veita vatni á landið en þær anna aðeins brotabroti af því sem áveitan skilar uppbyggð.

Þá fellur undir verkefnið að stofna til og þjálfa nefndir heimamanna til að annast mannvirkin að uppbyggingu lokinni auk þess sem bændur á svæðinu fá þjálfun í því að nýta vatnið frá áveitunni með skilvirkum hætti og fræðslu um ræktun almennt. Allt er þetta gert til að tryggja sjálfbærni svæðisins til lengri tíma litið, bæði hvað varðar mannvirkin og til að hámarka uppskeru á hverjum tíma.

Hörð átök geisa í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem um 28 milljónir af 118 milljónum íbúa búa við alvarlegan fæðuskort. Vegna átakanna hafa um átta milljónir neyðst til að flýja heimahaga, flestir eru á vergangi innanlands en hundruð þúsunda íbúa Kongó hafa leitað hælis í nágrannaríkjum – ekki síst í Úganda, verkefnalandi Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu.

Vopnuð átök milli stjórnarhersins og uppreisnarhópa í landinu hafa stigmagnast síðustu þrjú ár og voru þau mjög mannskæð á fyrri hluta árs 2025. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum létu þá að minnsta kosti þrjú þúsund manns lífið og fleiri en 500 þúsund lögðu á flótta.

Í Úganda eru um 1,8 milljón flóttafólks en ekkert ríki í Afríku tekur á móti fleira fólki á flótta. Frá janúar til mars 2025 höfðu 36.500 Kongóbúar bæst í hóp flóttafólks í landinu en talið er að fleiri en 550 flýi frá Kongó til Úganda daglega. Móttökustöðvar fyrir flóttafólk í Úganda eru löngu sprungnar og brýn þörf er á að bregðast við alvarlegri neyð.

Í maí 2025 sendi Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, frá sér uppfærða neyðarbeiðni (CEA241 – Revision 1) um frekara fjárframlag til mannúðaraðstoðar sem systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar veita í Kongó, Úganda og Tansaníu.

Hjálparstarfið svaraði beiðninni í maí með því að leggja til 21 milljón króna til mannúðarverkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, í Úganda sem bæði aðstoðar flóttafólkið með beinum hætti og leiðir starf samstarfsaðila á landsvísu. Lútherska heimssambandið í Úganda er auk þess samstarfsaðili Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu til margra ára. Framlag Hjálparstarfsins nam að meðtöldum styrk utanríkisráðuneytisins, 20 milljónum króna.

Til loka mars 2026 verður vatn og hreinlætisaðstaða tryggð fyrir tvö þúsund manns, fjögur þúsund manns verður tryggt húsaskjól, um 600 fá sálfélagslegan stuðning og gætt verður að kynbundnu öryggi eitt þúsund kvenna og barna í flóttamannabúðum í Úganda.

Hjálparstarf kirkjunnar sendi í desember síðastliðnum tíu milljónir króna til hjálparstarfs í Suður-Súdan vegna ofsaflóða í landinu. Fleiri en 250 þúsund íbúar þurftu að flýja híbýli sín og leita hælis í fjöldahjálparbúðum á þurrlendiseyjum en flóðin eyðilögðu ræktarlönd fleiri en milljón íbúa.

Alls búa um 11 milljónir manns í þessu yngsta þjóðríki heims en Suður-Súdan lýsti yfir sjálfstæði árið 2011. Síðan þá hafa náttúruhamfarir, átök og matarskortur plagað þjóðina og lífsskilyrði versnað.

Í hamfaraflóðunum haustið 2024 fóru vegir í sundur og torveldaði það allt hjálparstarf. Auk þess fór skólastarf úr skorðum og aðgengi að heilsugæslu versnaði á tímum þar sem aukin hætta var á smitsjúkdómum.

Fjárstuðningurinn frá Íslandi rennur til neyðaraðstoðar, þróunarsamstarfs og friðaruppbyggingar í þágu fólks á vergangi, flóttafólks og íbúa í Suður-Súdan sem urðu illa úti í flóðum. Því er um svokallað Nexusverkefni að ræða sunnan Sahara og er það í nágrenni verkefnasvæða Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda og Eþíópíu.

Um framkvæmd verkefnisins sér Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, sem er helsti samstarfsaðili Hjálparstarfs kirkjunnar í hjálparstarfi erlendis. Lútherska heimssambandið aðstoðar fólk í neyð með reiðufé fyrir nauðþurftum, fæði og húsaskjóli auk þess sem almannavarnir eru styrktar. Sálfélagslegur stuðningur er einnig veittur og vatn og hreinlætisaðstaða er sett upp. Unnið er að fæðuöryggi og tekið er tillit til mismunandi þarfa kynjanna. Þá er unnið að menntun og málsvarastarfi og síðast en ekki síst er unnið að friðsamlegum samskiptum í samfélaginu.

Framlag Hjálparstarfs kirkjunnar er að meðtöldum 8,5 milljóna króna stuðningi utanríkisráðuneytisins til mannúðaraðstoðar á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar.

Hörð átök milli súdanska stjórnarhersins (SAF) og sveita uppreisnarhersins Rapid Support Forces (RSF) hafa nú geisað í Súdan í á þriðja ár með skelfilegum afleiðingum fyrir almenna borgara en mannúðarkrísan í Súdan er talin sú stærsta og vanmetnasta í veröldinni nú um stundir.

Átökin eiga rætur sínar að rekja til valdabaráttu tveggja hershöfðingja sem stóðu sameiginlega að valdaráni í landinu árið 2019 þegar fyrrverandi forseta landsins var steypt af stóli en hann hafði þá setið í embætti í tæpa þrjá áratugi. Herstjórn hershöfðingjanna tveggja tók við en spenna þeirra á milli hafði farið stigvaxandi þar sem þeir deildu um innleiðingu nýs stjórnarfars í landinu og aðlögun RSF sveitanna að stjórnarhernum.

Frá því átökin hófust þann 15. apríl 2023 hafa tugir þúsunda fallið í átökunum og enn fleiri hafa særst. Nú þegar átökin hafa staðið svo lengi sem raun ber vitni er sú staða komin upp að hungursneyð geisar í landinu þar sem milljónir búa við alvarlegan næringarskort og fjölmargir deyja hungurdauða dag hvern. Þess utan hafa milljónir íbúa landsins neyðst til að yfirgefa heimkynni sín og eru á vergangi innan Súdan en á milli fjórar og fimm milljónir manna hafa flúið land og þá aðallega til Mið-Afríkulýðveldisins, Chad, Egyptalands, Suður-Súdan og Eþíópíu. Allt þetta fólk er í brýnni þörf fyrir aðstoð hvort sem það hefst að hjá ættingjum innanlands eða í yfirfullum flóttamannabúðum í nágrannaríkjum.

Hjálparstarf kirkjunnar í Noregi, NCA, biðlaði í lok ágúst 2024 til systurstofnana í Alþjóðlegu Hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance um fjárframlag til þess að geta sett aukinn kraft í mannúðaraðstoð í Súdan en helmingur þjóðarinnar, þá um 25 milljónir íbúa, bjó við skelfilegar aðstæður.

Frá 1. september 2024 til 31. ágúst 2025 áætlaði NCA að vinna með Caritas Internationalis og innlendum hjálparsamtökum í Súdan að því að veita mannúðaraðstoð til tæplega 100.000 einstaklinga, jafnt fólks á flótta undan stríðandi fylkingum sem íbúa í samfélögum sem taka á móti flóttafólkinu. Fólkið fær reiðufé fyrir nauðþurftum og því útvegað vatn og hreinlætisaðstaða. Þá er sérstaklega hugað að því að konur og stúlkur verði ekki fyrir kynbundnu ofbeldi og sálrænn stuðningur veittur börnum og fullorðnum.

NCA bað systurstofnanir í ACT Alliance um 2,2 milljónir evra til að veita aðstoðina. Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi lagði til 16 milljónir íslenskra króna (104.000 evrur) til mannúðaraðstoðarinnar eða um 5% af umbeðinni fjárhæð. Fimmtán milljónir komu frá utanríkisráðuneytinu vegna verkefnisins en Hjálparstarfið lagði til um eina milljón króna af söfnunarfé.

Strax eftir að átökin fyrir botni Miðjarðarhafs brutust út í október 2023 hóf Hjálparstarf kirkjunnar að undirbúa viðbragð sitt vegna sárrar neyðar almennings á Gasaströndinni. Í kjölfar jólasöfnunar sendi Hjálparstarfið svo tuttugu milljónir króna til hjálparstarfs á Gasa en framlagið er að meðtöldum 15 milljóna króna stuðningi frá utanríkisráðuneytinu.

Fjárframlagið var sent til Palestínuflóttamannahjálpar kirkjunnar í Mið-Austurlöndum (Middle East Council of Churches, Department of Service to Palestinian Refugees (MECC DSPR)), systurstofnunar Hjálparstarfsins í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna – ACT Alliance. Samtökin hafa starfað á svæðinu um langa hríð og hafa náið samráð við OCHA – Samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna um hjálparstarf og önnur hjálparsamtök á svæðinu.

Neyðaraðstoð MECC DSPR á Gasa hófst strax á fyrstu dögum átakanna eða eins fljótt og  mögulegt var. Verkefnið var upphaflega hugsað til tveggja ára en afleiðingar átakanna eru svo skelfilegar að ljóst er að neyðaraðstoð við almenna borgara og uppbygging innviða á Gasa verður nauðsynleg til lengri tíma.

Frá því í nóvember 2023 hefur MECC DSPR veitt rúmlega 106.000 börnum og fullorðnum læknis- og tannlæknaþjónustu á heilsugæslustöðvum samtakanna á Gasa. Meðal þjónustu sem þar hefur verið veitt má nefna mæðra- og ungbarnavernd, heimilislækningar,  tannlæknaþjónustu, lyfjagjöf og næringarpakka fyrir börn sem líða skort. Þá er þar boðið upp á hreinlætisvörur og dömubindi.

MECC DSPR hefur auk þess látið 620 fjölskyldum, sem að meðaltali telja fimm fjölskyldumeðlimi, í té reiðufé fyrir nauðsynjum svo sem drykkjarvatni, matvöru, klæðnaði og lyfjum. Þá hefur MECC DSPR veitt þúsundum áfallahjálp og sálfélagslegan stuðning í sjö fjöldahjálparstöðvum Sameinuðu þjóðanna og þá aðallega mæðrum og börnum þeirra.

Í janúar 2025 fékk Hjálparstarfið þær upplýsingar frá ACT Alliance að öllu  fjárframlagi Hjálparstarfsins til verkefna DSPR hefði þá verið ráðstafað.

Styrkja