Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna stríðsátaka
Lýðfrelsisfylking Tigray og stjórnvöld í Eþíópíu féllust á vopnahlé í lok árs 2022 sem hefur haldið til þessa dags. Borgarastríðið í Tigray hafði þá staðið óslitið í tvö ár en við undirskrift var samningalota deiluaðila búin að standa í áratug, sem er til marks um hversu þrálátar deilur fylkinganna tveggja hafa verið.
Átökin hafa leikið þetta næst fjölmennasta ríki Afríku grátt. Tölur eru á reiki en mat alþjóðastofnana er hins vegar að um 600.000 almennra borgara liggi í valnum. Þar af er talið að sex af hverjum tíu hafi dáið úr hungri enda var hungurvofunni beitt markvisst sem vopni af stjórnarhernum. Þá eru ótaldir þeir sem létu lífið eða særðust í beinum átökum og milljónir manna sem hröktust frá heimilum sínum.
Á meðan átökunum stóð einangruðu eþíópísk stjórnvöld Tigrayfylki nær algjörlega og því var aðgangur hjálparsamtaka mjög takmarkaður. Eftir að vopnahléið var sett á áttu forsvarsmenn hjálparsamtaka hins vegar kost á því að ferðast um svæði þar sem áður var útilokað að fara um. Það átti við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF DWS) sem veitti aðstoð vegna borgarastríðsins frá upphafi þess í nánu samráði við stjórnvöld og önnur mannúðarsamtök.
Í febrúar 2022 sendi Hjálparstarf kirkjunnar 22 milljónir króna til mannúðaraðstoðar LWF DWS í Amhara nágrannafylki Tigray en utanríkisráðuneytið veitti 20 milljón króna styrk til verkefnisins utan rammasamnings.
Markmið verkefnisins, sem varði frá júní 2022 – desember 2023, var að bregðast við alvarlegum fæðuskorti á svæðinu vegna átaka, þurrka og uppskerubrests.
Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna þurrka
Átök, þurrkar og fátækt herja á Eþíópíu og yfir 24 milljónir íbúa hafa undanfarin ár þurft aðstoð eingöngu vegna þurrkanna. Í júní árið 2022 sendi ACT Alliance út neyðarbeiðni vegna þurrka í þremur ríkjum; Sómalíu, Keníu og Eþíópíu. Strax í kjölfar hennar sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæplega 22 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðarinnar og nam styrkur utanríkisráðuneytisins til verkefnisins 20 milljónum króna. Framlag Íslendinga var eyrnamerkt mannúðaraðstoð Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF/DWS í Oromía- og Sómalí-fylkjum í Eþíópíu. Í Sómalífylki náði mannúðaraðstoð LWF meðal annars til Kebri Beyah héraðs en þar er stærsta verkefni Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu.
Lútherska heimssambandið hefur starfað í Eþíópíu frá árinu 1971 og veitt þar bæði mannúðaraðstoð og starfað í þróunarsamvinnu. LWF hefur m.a. aukið aðgengi fólks að vatni og hreinlætisaðstöðu og útvegað fólki húsaskjól, mat, búsáhöld og reiðufé til nauðþurfta. Fólkið í fylkjunum tveimur býr við alvarlegan fæðuskort og búfénaðurinn fellur úr hor vegna þurrka. Aðgengi að vatni er þar afar takmarkað sem leiðir til þess að fólkið yfirgefur iðulega heimkynni sín og fer á vergang. Heilsufar versnar og börn sækja ekki skóla.
Verkefninu sem Hjálparstarfið átti aðild að náði til 72.000 íbúa landsins, bæði heimafólks og fólks á vergangi á þeim átján mánuðum sem verkefnið stóð yfir, eða frá júnímánuði 2022 til ársloka 2023. Markmið verkefnisins voru að bjarga mannslífum og koma í veg fyrir hungursneyð og alvarlega vannæringu fólksins sem býr á verstu þurrkasvæðunum. Þá var veittur sálfélagslegur stuðningur en stærstu kostnaðarliðir verkefnisins voru að útvega vatn og hreinlætisaðstöðu og að tryggja fæðuöryggi fólksins.
Hvað starfssvæði Hjálparstarfsins í Sómalífylki varðar þá var um verstu þurrka að ræða í fjóra áratugi. Hundruð þúsunda bættust við tölu þeirra sem voru þegar á vergangi innan svæðisins og milljónir manna bættust við hóp þeirra sem þurfa aðstoð við að brauðfæða sig. Stór hluti vandans sem langvarandi þurrkar skapa er að búsmali fólksins á svæðinu hríðféll og er þá sama hvort um geitur, sauðfé eða nautgripi er að ræða.
Samkvæmt Eþíópísku heilbrigðisstofnuninni (EPI) braust kólera einnig út á tveimur aðskildum svæðum í Sómalífylki og var um hliðarverkun þurrkanna að ræða. Þá gripu bændafjölskyldur til þess örþrifaráðs að leggja sér útsæði sitt til munns. Þegar allt er samantekið mátu stjórnvöld og hjálparsamtök stöðuna svo að vegna þrálátra þurrka, mögulega að stórum hluta vegna loftslagsbreytinga, hafi staða íbúa á stórum svæðum innan Eþíópíu verið afar ótrygg.
Í heild sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæpar 33 milljónir króna til systursamtaka sinna í Eþíópíu vegna verkefnisins á árinu 2022. Tuttugu og tveggja milljóna króna framlag í júlí og auk þess tæplega ellefu milljóna króna framlag í desember. Þetta var mögulegt með tilstyrk utanríkisráðuneytisins sem lagði til 30 milljónir króna.