Þótt hálf öld sé liðin man ég eftir því eins og gerst hafi í gær að pabbi leiddi mig í skólann í fyrsta sinn. Ég var að springa úr tilhlökkun og ég var montin. Ég var nefnilega með nýja skólatösku á bakinu. Mamma og pabbi áttu fimm börn og bjuggu við kröpp kjör svo ný taska var alls ekki sjálfgefin.

Þótt við fjölskyldan byggjum þröngt og á nútímamælikvarða við fátækt þá skipti það mig sem barn ekki miklu máli því þannig bjó fólk almennt í kringum okkur. Fátækt er enda að hluta til spurning um hvað séu ásættanleg lífsgæði í viðkomandi samfélagi.

En fátækt er líka hugtak um skort og nær til þess að fólk hefur ekki nóg til að mæta grunnþörfum. Hún nær þannig til fjárhagslegs, félagslegs, menntunarlegs, húsnæðislegs og heilsufarslegs ástands sem fólk býr við til lengri eða skemmri tíma.

Undanfarinn áratug hafa fleiri en tvö þúsund fjölskyldur neyðst til að leita til Hjálparstarfsins um aðstoð ár hvert. Sumar þeirra eru fastar í vítahring fátæktar á meðan aðrar glíma við tímabundinn vanda. Allar eiga þær sameiginlegt að hafa ekki næg fjárráð til að geta mætt grunnþörfum sínum.

Hjálparstarfið leggur áherslu á að tryggja velferð barna og því felst neyðaraðstoðin fyrst og fremst í því að barnafjölskyldur fá inneignarkort fyrir matvöru. Í upphafi skólaárs huga félagsráðgjafar Hjálparstarfsins svo sérstaklega að því að börn líði ekki fyrir efnaleysi foreldranna.

Félagsráðgjafarnir vita sem er að mörg börn kvíða skólabyrjun. Ekki endilega námsins vegna heldur vegna þess að þau óttast félagslega einangrun sökum fátæktar. Þau kvíða því að mæta vanbúin í skólann. Hjá Hjálparstarfinu fengu í fyrrahaust foreldrar fleiri en 300 grunnskólabarna fyrir þau skólatöskur og fleira sem tilheyrir því að byrja í skólanum.

Fátækt er að hluta til spurning um hvað séu ásættanleg lífsgæði. Hér á Íslandi búa sem betur fer fáir við allsleysi en það gerir hins vegar fólkið sem við vinnum með í Eþíópíu, Úganda og Malaví. Fólkið þar hefur minna en 300 krónur til ráðstöfunar á dag og hefur ekki nægan aðgang að vatni og heilsugæslu.

Og þar mæta unglingsstúlkur ekki í skólann þegar þær eru á blæðingum vegna þess að þær hafa ekki efni á að kaupa dömubindi. Smám saman dragast þær aftur úr og flosna upp úr námi. Margar þeirra verða svo mæður börn að aldri sjálfar og þannig viðhelst fátæktin.

Fátækt er birtingarmynd undirliggjandi vanda og ójöfnuðar sem við verðum að takast á við saman jafnt á landsvísu sem á heimsvísu. Almenn lífskjör á Íslandi eru með því besta sem þekkist í heiminum og okkur sem erum aflögufær ber siðferðileg skylda til að tryggja velferð allra barna. Og tryggja að þau geti mætt í skólann full tilhlökkunar.

Kristín Ólafsdóttir
verkefnastýra, umsjón með erlendum verkefnum

Samhliða aðstoð við barnafjölskyldur hefjum við á hverju hausti söfnun undir slagorðinu Ekkert barn útundan! og höfum sent 2.900 króna valgreiðslu í heimabanka landsmanna. 

Styrkja