Abdi Alele er 42 ára gamall bóndi sem býr í Sheik Ali í Awbarre héraði í Eþíópíu. Hann er einstæður faðir með sex börn; á tvær dætur og fjóra syni. Abdi hefur á undanförnum árum ræktað jarðarskika sem er 1,75 hektarar að stærð auk þess að halda nautgripi. Hann átti 20 gripi árið 2019 en sextán þeirra hafa drepist vegna þurrka og uppskerubrests. Það sem eftir stendur af hjörðinni er illa haldin – svo illa að dýrin eru gott sem verðlaus á markaði.

Abdi Alele

„Í þrjú ár fékk ég litla eða enga uppskeru af mínu landi,“ segir Abdi en árið 2022 sáði hann maís á jarðarskika sinn sem sölnaði fljótlega í þurrkinum og uppskeran dugði til lítils annars en í búpeninginn. Sjálfur þurfti Abdi að reiða sig á kornúthlutun stjórnvalda til að fæða fjölskylduna. Sú úthlutun dugði þó ekki nema í stuttan tíma, þó sparlega væri farið með.

Abdi er einn þeirra sem hafa fengið aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar með milligöngu Lútherska heimssambandsins (LWF). Hann segir aðstoð samtakanna hafa skipt miklu máli fyrir íbúa héraðsins og hún hafi bætt líf allra sem hana hafa fengið. Fyrir hann persónulega þýddi framlagið – sem er greiðsla fyrir tiltekin unnin verk – að hann þurfti ekki að sitja auðum höndum og velta sér upp úr erfiðri stöðu fjölskyldunnar.

Launin gerðu honum kleift að kaupa hentugt fóður fyrir nautgripina sem eftir eru. Eins að greiða fyrir læknismeðferð dóttur sinnar og kaupa nauðsynjar; matarolíu, sykur og salt. Þá er ótalin kostnaður við að viðhalda vatnsþró fyrir regnvatn, en Abdi var í hópi heimamanna sem komu að viðhaldsvinnunni.

Nú er aðeins ein vatnsþró nothæf sem jafngildir því að þorpsbúar hafi vatn til einnar viku. Hann hvetur hjálparsamtök eindregið til frekari aðgerða til að tryggja fólki á svæðinu vatn til lengri tíma og koma í veg fyrir þær hörmungar sem slíkur skortur getur valdið.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja