Nú er mánuður liðinn frá því að jarðskjálftarnir miklu riðu yfir landamærahéruð Tyrklands og Sýrlands. Ljóst hefur verið frá upphafi að afleiðingar skjálftana eru slíkar að erfitt er að gera sér þær í hugarlund. Gefið hefur verið út að tala látinna sé 50.000 að minnsta kosti, milljónir hafa misst heimili sín og byggingar sem hrundu eða eru óíbúðarhæfar skipta hundruðum þúsunda. Milljónir eru hjálpar þurfi.

Þessi dapurlega tölfræði hamfaranna segja aðeins hluta sögunnar. Tala látinna mun á næstu vikum hækka stöðugt enda á eftir að bera kennsl á fjölda fólks sem fórst. Aðrir hafa ekki verið skráðir sem látnir eða að þeirra sé saknað þar sem fjölskyldur leita enn þá í örvæntingu í rústum húsa í þeirri von að þar geti enn þá einhver verið á lífi. Tyrknesk yfirvöld hafa ekki treyst sér til að gefa út tölur um fjölda þeirra sem er saknað.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) telur að jarðskjálftarnir hafi haft neikvæð áhrif á um fimm milljónir barna. Sum hver standa ein, á önnur hefur ekki einu sinni verið borin kennsl og eru upp á vandalausa komin.

Ógnarstórt verkefni

Uppbyggingin sem fram undan er ógnarstórt verkefni. Alþjóðabankinn telur að uppbygging íbúðarhúsnæðis og innviða muni að minnsta kosti kosta 34 milljarða Bandaríkjadala – eða tæplega fimm þúsund milljarða íslenskra króna. Útreikningar Tyrkja sjálfra gera ráð fyrir að uppbygging eftir jarðskjálftana muni kosta umtalsvert meira, eða 49 milljarða Bandaríkjadala (sjö þúsund milljarðar íslenskra króna). Aðrir telja útilokað að setja verðmiða á verkefnið fram undan enda sé höggið á efnahagskerfi landanna svo þungt að það eigi eftir að draga dilk á eftir sér næstu áratugina.

Óvissan í Sýrlandi

Í Sýrlandi reyna menn ekki að reikna. Eftir 12 ára langt borgarastríð eru jarðskjálftarnir aðeins enn eitt höggið. Hvernig á að reikna skaðann af náttúruhamförum þar sem byggðir og innviðir samfélags voru þegar sundur tættir?

Upplýsingar frá Sýrlandi eru af skornum skammti. Sameinuðu þjóðirnar ætla að 8,8 milljónir manna hafi orðið fyrir áhrifum skjálftanna, og margir þeirra séu í dag heimilislausir. Opinberar tölur segja 5.900 látna vegna hamfaranna í Sýrlandi en á sama tíma virðast allir sem til þekkja vera sammála um að tala látinna sé miklu, miklu hærri. Áður en jarðskjálftarnir riðu yfir bjuggu 1,8 milljónir manna sem flúið höfðu heimili sín í tjöldum, neyðarskýlum eða inni á heimilum skyldmenna eða vandalausra. Eftir jarðskjálftana hefur stór hópur þeirra neyðst til að leggjast út þar sem vetrarkuldar gera vistina óbærilega erfiða.

*Uppfært 7. mars. Sam­einuðu þjóðirn­ar segja að tjónið af völd­um jarðskjálft­anna nemi rúm­um 100 millj­örðum dala, sem jafn­gild­ir um 14.000 millj­örðum kr, og þá aðeins í Tyrklandi. Kostnaður við björg­un­araðgerðir á vett­vangi telst þar ekki með. (Mbl.is).

Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.

Styrkja