Framkvæmdum við vatnsmiðlun í Seba Kare flóttamannabúðunum í hinu stríðshrjáða Tigray-héraði í Eþíópíu er lokið. Verkið var fjármagnað af stórum hluta af Hjálparstarfi kirkjunnar og íslenskum stjórnvöldum ásamt systurstofnunum Hjálparstarfsins í Ástralíu, Suður- og Norður Ameríku og víðar. Vatnsmiðlunin hefur verið afhent borgaryfirvöldum í héraðshöfuðborginni Mekelle.

Um samstarfsverkefni á vegum systurstofnana innan Alþjóðlegs hjálparstarfs kirkna – ACT Alliance og Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins (LWF) var að ræða en vatnsmiðlunin mun nýtast flóttafólki jafnt sem íbúum svæðisins. Ef af líkum lætur geta yfir 20.000 manns sótt sér hreint vatn í átta tíma hvern dag. Verklokin og starfsemi vatnsmiðlunarinnar eru tímamót þar sem hún er sú fyrsta og eina sem hefur verið byggð síðan blóðug borgarastyrjöld braust út á svæðinu í nóvember 2020.

Sophie Gebreyes í viðtali hjá Rúv í Íslandsheimsókn sinni í fyrra. Mynd/RÚV

Í ræðu sinni á vígsluathöfn vatnsmiðlunarinnar þakkaði Sophie Gebreyes, framkvæmdastjóri LWF, Hjálparstarfinu og íslenskum stjórnvöldum, auk annarra samstarfsaðila, sérstaklega fyrir stuðninginn á verktímanum. Án fjárhagslegs stuðnings og hvatningar hefði bygging veitunnar verið fjarlægur draumur.

Sophie sagði jafnframt að upphaflega hefði staðið til að flytja vatn til svæðisins með tankbílum. Uppbygging vatnsveitu hefði hins vegar þótt mun betri og sjálfbærari kostur, ekki síst í ljósi hversu flutningar vatns til svæðisins hefðu verið kostnaðarsamir. Þá er ótalið að slíkir flutningar vatns til svæðisins hefðu reynst afar flóknir í framkvæmd og fáar uppsprettur vatns hentugar í nágrenni Seba Kare búðanna.

Verkefnið í Seba Kare hefur á framkvæmdatímanum verið tíðum breytingum undirorpið vegna vandkvæða við aðföng. Það var á endanum leyst með því að tengjast landsdreifikerfinu í stað þess að vélvæða vatnsveituna sérstaklega. Þetta hafði mikinn sparnað í för með sér og leysti úr tæknilegum vandkvæðum en á meðan átökin stóðu yfir var lokað fyrir rafmagn til svæðisins og eldsneyti rándýrt.

„Þetta hefði ekki verið gerlegt nema fyrir sveigjanleika samstarfsaðila okkar. Ég vil nefna að vatnsveitan er sú eina sem sett hefur verið upp í Tigray frá því að átökin hófust og því um stórvirki að ræða,“ sagði Sophie í ræðu sinni.

Á meðan átökin stóðu yfir frá nóvembermánuði 2020 þangað til deiluaðilar náðu samkomulagi um vopnahlé réttum tveimur árum síðar féllu öll önnur vatnsöflunarverkefni niður. Þýðing þess var að 4,7 milljónir manna höfðu ekki aðgang að heilnæmu vatni. Vatnsmiðlunin í Seba Kare mun hins vegar stórbæta daglegt líf fólks á stóru svæði þar sem lífsbaráttan er afar hörð.

„Vatnsmiðlun LWF í Seba Kare leysir úr einni af stærstu áskorunum svæðisins á tímum þar sem staðaryfirvöld höfðu engin ráð til að uppfylla þessar frumþarfir fólksins á svæðinu,“ kom fram í máli Charles Masanga, verkefnastjóra LWF.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja