„Ef það væri ekki fyrir jólin væri veturinn bara dimmur og kaldur og ekkert annað,“ sagði einhver.
Jólaljósin, góður matur, gjafmildi og kærleikurinn sem fylgir, hlýjar og vermir óháð vetrarkulda og myrkri. En geta allir fengið að upplifa slík jól? Því miður er raunin sú að allt of margir búa við efnislegan skort sem setur því skorður hvað hægt er að leyfa sér um jólin.
Hjálparstarfið hefur um árabil staðið fyrir sérstakri aðstoð fyrir jólin, okkur er sérstaklega umhugað um börnin, að þau fái að upplifa góð jól.
Um síðustu jól fékk 1.621 fjölskylda um land allt inneignarkort og fleira. Má reikna með að 4.860 fullorðnir og börn hafi þannig notið aðstoðar. Þegar rýnt er í gögn Hjálparstarfsins um aðstæður fólksins sem leitaði eftir aðstoð kemur í ljós að mikill meirihluti býr í leiguhúsnæði. Langstærsti hópurinn leigði íbúð á almennum markaði. Nú sem fyrr blasir því við að húsnæðiskostnaður er meginástæða þess að fólk nær ekki endum saman. Aftur og aftur sjá félagsráðgjafar Hjálparstarfsins dæmi þess að þegar húsaleiga hefur verið greidd stendur aðeins lítill hluti greiddra launa eftir. Þetta er þó ekkert nýtt. Svo langt sem horft er aftur koma sömu ástæður í ljós fyrir bágri stöðu fólks. Því er fólk sífellt að glíma við sömu draugana sem er ekki síst ógnarhár húsnæðiskostnaður.
Mikilvægt er að allar fjölskyldur, öll börn, fái að upplifa góðar stundir ekki síst á jólum og eignist góðar minningar sem lifa með þeim alla ævi. Þá er mikilvægt að foreldrar sem búa við bág kjör fái stuðning svo að efnislegur skortur komi ekki í veg fyrir að hægt sé að gera sér glaðan dag um jólin. Það er enginn að tala um að gjafir og allt umstangið þurfi að kosta mjög mikið til að jólin séu gleðileg, heldur að á jólum geti allir leyft sér aðeins meira og engin börn líði skort.
Það ber að þakka öllum þeim sem hafa stutt Hjálparstarfið í aðdraganda jóla; sveitarfélög, ríki, samtök, stéttarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Þessi frábæri stuðningur hefur gert okkur kleift í samstarfi við fjölda aðila um allt land að halda úti aðstoð sem gefur fjölskyldum tækifæri til að halda gleðileg jól.
Mættum við öll fá gleðileg og friðsæl jól.
Bjarni Gíslason
