Lýðfrelsisfylking Tigray og stjórnvöld í Eþíópíu féllust á vopnahlé í lok árs 2022 sem hefur haldið til þessa dags. Borgarastríðið í Tigray hafði þá staðið óslitið í tvö ár en við undirskrift var samningalota deiluaðila búin að standa í áratug, sem er til marks um hversu þrálátar deilur fylkinganna tveggja hafa verið.   

Átökin hafa leikið þetta næst fjölmennasta ríki Afríku grátt. Talið er að tugir þúsunda almennra borgara hafi látið lífið í átökunum sjálfum en hundruð þúsunda hafi dáið úr hungri eða vegna skorts á læknisþjónustu enda eru skólar, heilsustofnanir og vatnskerfi í rúst. Tölur eru á reiki en mat alþjóðastofnana er hins vegar að 500.000 almennra borgara liggi í valnum – hið minnsta. Þar af er talið að sex af hverjum tíu hafi dáið úr hungri enda var hungurvofunni beitt markvisst sem vopni af stjórnarhernum. Þá eru ótaldir þeir sem létu lífið eða særðust í beinum átökum og milljónir manna sem hafa hrakist frá heimilum sínum.

„Eðlilegt ástand“

Eþíópísk stjórnvöld einangruðu Tigrayfylki nær algjörlega á meðan átökin stóðu yfir og því var aðgangur hjálparsamtaka mjög takmarkaður. Eftir að vopnahléið var sett á hafa forsvarsmenn hjálparsamtaka hins vegar átt kost á því að ferðast um svæði þar sem áður var útilokað að nálgast. Það á við samstarfsaðila Hjálparstarfs kirkjunnar sem hefur stutt við systursamtök sem hafa veitt aðstoð vegna borgarastríðsins frá upphafi þess, og ekki síst Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF).

Sophie Gebreyes, framkvæmdastjóri LWF, sendi Hjálparstarfinu ferðasögu sína fyrir skemmstu. Hún greinir frá því að heilt yfir haldi vopnahléið sem var gert og „eðlilegt ástand“ sé hægt og bítandi að komast á.

„Flutningabílar, og bílar hjálparsamtaka, voru áberandi á leiðinni til og frá Mekelle. Hins vegar berast ennþá fregnir af ofbeldi á svæðum næst landamærum Eritreu og Amhara og þessi svæði eru í dag þau sem erfiðast er að komast til,“ skrifar Sophie og bætir við:

„Fólk sem varð á vegi okkar, bæði í bæjum og þorpum, var afar ánægt með að grunnþjónusta er að komast í samt lag; síma- og netsamband er komið á, rafmagn og fjármálastofnanir eru byrjaðar að veita þjónustu sína að nýju. Þetta er mikil breyting frá því sem verið hefur undanfarin tvö ár á þeim tíma sem hömlur hafa náð til alls og allra. Fjármálastofnanir hafa hins vegar ekki sjóði til að veita fullnægjandi þjónustu og við því háð flugi frá Mannúðarflugþjónustu Sameinuðu þjóðanna (UNHAS) til að halda starfsemi okkar gangandi. Sveitafélög bíða eftir millifærslum á fé frá stjórnvöldum sem hafa fallið alfarið niður síðastliðin tvö ár. Þetta þýðir að opinberir starfsmenn hafa ekki fengið greidd laun síðastliðin tvö ár.“

Horft til framtíðar

Sophie greinir frá því að heimsókn LWF til fyrrum átakasvæða í Tigray hafi gefið tækifæri til að meta þá gríðarlegu uppbyggingarþörf sem er í Tigray eftir tveggja ára ófrið. Endurbyggja þurfi vatnsveitu og hreinlætisaðstöðu, skóla, sjúkrahús, en ekki síður innviði samfélaganna á svæðinu; mæta þörfum fólks félagslega og barna sem standa ein. Eins þarf að veita efnislegan stuðning svo varðveita megi viðkvæman frið.

„Jarðyrkja og starfsþjálfun fólksins eru þar lykilatriði við enduruppbyggingu samfélagsins. Það er afar mikilvægt að friðurinn tryggi betri lífsskilyrði en á meðan stríðsástand varir, og því verður að hjálpa þeim sem tilheyrðu stríðandi fylkingum að hverfa aftur til hversdagslegs lífs, sérstaklega þarf að veita konum aðstoð, eins fólki á flótta við að snúa heim til að byggja samfélögin upp.“

Mannúðaraðstoð Hjálparstarfsins

Starfsárið 2020 – 2021 sendi Hjálparstarfið rúmlega 21 milljón króna til mannúðaraðstoðar innan Tigray fylkis. Aðstoðin fólst þá fyrst og fremst í því að vernda líf og afkomu fólks, bæta fæðuöryggi með því að útvega korn og verkfæri til landbúnaðar, úthluta búfé, tryggja fólki húsaskjól og veita beinan óskilyrtan fjárstuðning. Í febrúar 2022 sendi Hjálparstarfið svo 22 milljónir króna til mannúðaraðstoðar í Amhara, nágrannafylki Tigray. Utanríkisráðuneytið veitti 20 milljón króna styrk til verkefnisins.

Markmið verkefnisins var að bregðast við alvarlegum fæðuskorti á svæðinu vegna átaka, þurrka og uppskerubrests. Fólkið sem aðstoðarinnar nýtur hefur sumt hvert þurft að yfirgefa heimili sín vegna átakanna. Það býr við afar ótryggar aðstæður og líður skort á helstu nauðsynjum.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

 

 

Styrkja