Afleiðingar hitabeltisstormsins Freddy í suðurhluta Malaví eru hægt og bítandi að koma í ljós. Stormurinn hefur skilur eftir sig slóð eyðileggingar og manntjóns. Stöðuskýrslur stjórnvalda í landinu lýsa því hvernig innviðir hafa stórskemmst eða eyðilagst víða um landið sunnanvert og hálf milljón manna hafa hrakist frá heimilum sínum.

Fjölmörg héruð eru í sárum eftir að stormurinn gekk þar yfir um miðjan mánuðinn. Þetta á við héruðin Blantyre, Chiradzulu, Mulanje, Mwanza, Neno, Nsanje, Thyolo, Phalombe og Zomba auk Chikwawa-héraðs sem verður starfssvæði Hjálparstarfsins sem í upphafi árs hóf undirbúning nýs  þróunarsamvinnuverkefnis í landinu í krafti rammasamnings Hjálparstarfsins við utanríkisráðuneytið.

Lazarus Chakwera forseti Malaví lýsti yfir neyðarástandi og síðar fjórtán daga þjóðarsorg í kjölfar eyðileggingarinnar, eins og Heimsljós – upplýsingaveita utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál, fjallar um.

Þar er einnig sagt frá því að íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að verja 500.000 Bandaríkjadölum – jafnvirði 71 milljóna króna – til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, vegna neyðarástandsins. Framlagið nýtist stjórnvöldum í Malaví til björgunaraðgerða, við flutning á neyðargögnum og til þess að kaupa mat fyrir þær þúsundir sem reiða sig á matvælastuðning eftir hamfarirnar.

Hafa tapað aleigunni

Víða í landinu eru opinberar byggingar stórskemmdar; skólar, sjúkrahús stjórnsýslubyggingar sem og samgöngumannvirki. Margra er saknað en tala látinna hækkar dag frá degi. Í stöðuskýrslu stjórnvalda sem dagsett er 22. mars er staðfest að 511 hafa látið lífið í Malaví og ríflega 500 er saknað en fólk hefur einnig farist af völdum veðursins í Madagaskar og Simbabve.

Í skýrslunni segir að rúmlega 126.000 fjölskyldur hafi hrakist frá heimilum sínum. Alls hafast rúmlega 563.000 manns við í 576 búðum sem settar hafa verið upp fyrir þau sem geta ekki snúið heim vegna flóða, skriðufalla og mikið skemmdra innviða í landinu.

Ljóst er að þörfin fyrir neyðaraðstoð á stórum svæðum í landinu er aðkallandi. Öll sem hafa þurft að flýja heimili sín hafa tapað miklu; margir aleigunni. Það sem gerir stöðu margra enn alvarlegri þegar til lengri tíma er litið er að tugþúsundir hektara ræktarlands hafa skolast burt í flóðum. Bráðabirgðatölur stjórnvalda greina frá því að fyrsta mat á töpuðu ræktarlandi er tæplega 35.000 hektarar en öruggt er talið að ræktað land sem tapast hefur sé miklum mun víðfeðmara.

Í samhengi má nefna að þungamiðja verkefnis Hjálparstarfsins í landinu er að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn öfgum í veðri af völdum loftslagsbreytinga og tryggja lífsviðurværi og fæðuöryggi fólks eins vel og mögulegt er. Þar er ekki síst horft til þess að grípa til varna þar sem veðuröfgar ganga harkalega á ræktarland, bæði vegna flóða og þurrka.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja