Þegar ég fékk úthlutað starfsnámi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar í upphafi árs taldi ég mig vita nákvæmlega hvað ég væri að fara út í. Ég hafði áður unnið við úrvinnslu umsókna um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg og þar hafði ég þurft að synja fólki um fjárhagsaðstoð á þeim grundvelli að reglur um slíka aðstoð voru ekki uppfylltar. Ég taldi mig því vita að það væri hópurinn sem leitaði aðstoðar. Mér skjátlaðist vissulega og það var mikið meira sem ég ekki vissi og hef fengið að læra síðastliðna mánuði.

Starfið var mun fjölbreyttara en ég hafði gert ráð fyrir. Á mánudögum fékk ég að hitta konur sem flúið hafa eigið land vegna óöruggra aðstæðna. Þær hittast þrisvar í viku til að sauma, hekla, læra íslensku og sinna félagslegum þörfum. Þrátt fyrir að tala ekki stakt orð í spænsku né farsi tókst mér að kenna mörgum þeirra að hekla. Þá þurfti ég að beita allt öðru en viðtalstækninni sem mér hefur verið kennd í háskólanum og leiklistaráfanginn sem ég tók í MH kom að mikið betri notum.

Alla þriðjudaga starfaði ég í Skjólinu. Þangað sækja konur sem eru heimilislausar eða búa við óöruggar aðstæður. Sem félagsráðgjafarnemi hélt ég að konurnar sem nota þjónustu Skjólsins væru í mikilli þörf fyrir að fá að segja sína sögu, þyrftu ráðgjöf vegna félagslegrar stöðu sinnar eða leiðbeiningar um hvernig þær gætu leitað réttar síns. Enn og aftur skjátlaðist mér. Þær leita þangað til að fá sér hádegismat, fara í sturtu og leggja sig. Þær leita þangað til að hlaða batteríin og fá smá hlé frá því að þurfa að berjast fyrir sínum rétti og segja enn og aftur frá öllum áföllum lífs síns, bara til þess eins að fá grunnþjónustu. Fá að vera bara án þess að mæta fordómum samfélagsins, heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins.

Ég fékk að kynnast fólki úr öllum hópum samfélagsins og skyggnast inn í aðstæður þeirra. Hjálparstarf kirkjunnar hefur kennt mér mikið og þá sérstaklega hún Vilborg sem ég fékk að fylgja eftir. Eftir situr samt reiði. Góð reiði. Reiði í garð kerfisins sem hefur brugðist. Reiði í garð pólitíkusa sem leyfa þessu ástandi að viðgangast. Reiði sem fær mig til að vilja breyta og bæta. Snúa frá endalausum refsingum og byggja upp hvatamiðað kerfi sem hvetur fólk áfram. Því það borgar sig margfalt. Það borgar sig ekki bara hvað fjármagn varðar, heldur bætir það lífsgæði fólks í landinu.

Sara Sólrún Aðalsteinsdóttir
félagsráðgjafarnemi, MA

Styrkja