Þrjátíu og fimm konur gengu til fundar við Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á dögunum. Þær eru allar þátttakendur í valdeflingarverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar.
„Frú forseti, þakka þér fyrir Ísland og íslensku þjóðina sem gefur okkur tækifæri til að vaxa sem einstaklingar og öðlast meiri lífsgæði, og til að öðlast nýtt líf.“
Svo hljóma lokaorð stuttrar þakkarræðu sem Ayat, ung kona frá Venesúela, en á ættir að rekja til Sýrlands, flutti til Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á Bessastöðum fyrir skemmstu. Tilefnið var heimboð forseta sem tók á móti þátttakendum í valdeflingarverkefninu Saumó – tau með tilgang sem Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn standa fyrir.

Ayat flytur þakkarræðu sína á Bessastöðum. Halla Tómasdóttir og verkefnisstýra Saumó, Hildur Loftsdóttir, hlýða á mál hennar.
Í hópnum voru meðal annars konur frá Venesúela, Afganistan, Kúrdistan, Íran og Nígeríu en Saumó er félagsskapur kvenna úr hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda sem dvelja á Íslandi. Þær hittast þrisvar í viku, stunda saman hannyrðir og selja afurðirnar. Samhliða njóta þær félagskapar, læra íslensku og fræðast um íslenskt samfélag. Tilgangur verkefnisins er að vinna gegn félagslegri einangrun og greiða þátttakendum leið út á vinnumarkaðinn.

Momena og Binazir frá Afganistan
Þess má geta að þetta var í annað sinn sem Saumó-konur heimsækja forseta Íslands að Bessastöðum en Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi forseti Íslands, tók á móti stórum hópi kvenna árið 2022. Þá og nú nutu konurnar heimsóknarinnar mjög, spjölluðu við forsetann, dreyptu á kaffi og te og þáðu bakkelsi.
Verkefnið á upphaf sitt að rekja til ársins 2017 og er fyrir konur sem eru útsettar fyrir félagslegri einangrun. Konurnar endurvinna efni sem almenningur hefur gefið og læra að sauma úr því margvíslega nytjahluti. Einnig hafa þær gert skartgripi og heklað.

Ameneh frá Íran og Vero frá Nígeríu fá sér kaffisopa og bakkelsi.
Verkefnið stuðlar að aukinni virkni kvennanna og mikilvægum félagsskap um leið. Heimsókn sem þessi er liður í því starfi en verkefnið er unnið í samvinnu við Hjálpræðisherinn og hittist hópurinn í húsnæði hans hverja viku á mánudögum og fimmtudögum, og lærir íslensku á þriðjudögum. Á síðasta starfsári Hjálparstarfsins mættu að meðaltali 25 konur og börn þeirra í hvert skipti.

