Í gær undirritaði utanríkisráðherra rammasamninga við fern íslensk félagasamtök sem starfa á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Auk Hjálparstarfs kirkjunnar var gengið til samninga við Barnaheill – Save the Children á Íslandi og Rauða krossinn á Íslandi til að styðja verkefni á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu en einnig var gerður samningur við SOS Barnaþorpin á Íslandi vegna þróunarsamvinnuverkefna. Rammasamningarnir munu veita Hjálparstarfinu og hinum félagasamtökunum dýrmætan fyrirsjáanleika sem auðveldar skipulagningu verkefna og eykur viðbragðsflýti samtakanna, til dæmis þegar neyðarástand skapast.

„Við stöndum á ákveðnum tímamótum með undirritun þessara samninga. Undanfarin tvö ár höfum við séð þörfina fyrir mannúðaraðstoð og þróunarsamvinnu aukast og er því mikilvægt fyrir Ísland að standa sem þjóð á meðal þjóða og gera enn meira til að standa við skuldbindingar okkar til alþjóðsamfélagsins,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra við undirritunina. „Félagasamtök gegna hér mikilvægu hlutverki sem traustir samstarfsaðilar og er mikill virðisauki fólginn í samstarfinu,“ sagði ráðherra ennfrekar.

Samstarf stjórnvalda við íslensk félagasamtök á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu á sér langa sögu og hefur fjölbreytni verkefna aukist á undanförnum árum. Markmið með rammasamningunum er að gott samstarf sé á milli ráðuneytisins og félagasamtakanna sem stuðla að árangri í þróunarsamvinnu, framgangi heimsmarkmiðanna og bættum lífskjörum í þróunarríkjum.

Hjálparstarf kirkjunnar leggur áherslu á stuðning við fólk og samfélög með það að leiðarljósi að auka sjálfbærni þeirra, virkja þátttakendur og byggja upp staðbundna þekkingu til að hraða þróun. Verkefni á sviði þróunarsamvinnu eru unnin í Afríku og er lögð áhersla á að auka viðnámsþrótt gegn loftlagsbreytingum, bætta lífsafkomu og jafnrétti kynjanna, og vinnu gegn fátækt. Á sviði mannúðar leggur Hjálparstarf kirkjunnar áherslu á aðstoð í samvinnu við Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance og hjálparstarf Lúterska heimssambandsins (Lutherian World Federation, World Service, LWF World Service).

Fréttin er unnið upp úr frétt Gunnars Salvarssonar í Heimsljósi á Visi.is þann 15. mars 2022.

Styrkja