Yfir 24 milljónir íbúa Eþíópíu þurfa á aðstoð að halda vegna þurrka í landinu og enn er ekki hægt að koma hjálpargögnum inn í Tigrayhérað.

„Ef neyðaraðstoð berst ekki til Eþíópíu fljótlega getur það haft mikil áhrif á næstu kynslóðir,“ segir Sophie Gebreyes framkvæmdastjóri Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu, samstarfsaðila Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu í landinu. Átök, þurrkar og fátækt herja á landið og yfir 24 milljónir íbúa þurfa aðstoð eingöngu vegna þurrkanna.

Átök í Tigrayhéraði í Eþíópíu undanfarin tvö ár, þar sem her stjórnar héraðsins hefur barist við stjórnarher Eþíópíu, hafa valdið íbúum héraðsins miklum hörmungum. Átökin hafa ekki aðeins haft áhrif í Tigrayhéraði heldur líka í nágrannahéruðunum Amhara og Afar. Og þrátt fyrir nýumsamið vopnahlé hefur enn enga aðstoð verið hægt að veita íbúum í héraðinu.

Sophie segir stöðuna í Tigrayhéraði grafalvarlega. „Ekkert vatn, engin fjármálaþjónusta, engin matvæli berast því aðfangaleiðum hefur verið lokað vegna átakanna. Það er heldur ekkert netsamband, engin upplýsingamiðlun, allt er lokað. Svo að ég veit í raun ekki hvernig ástandið er. Ég veit bara að það er ískyggilegt.“

Sophie Gebreyes framkvæmdastjóri Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu. Mynd/RÚV

Sophie segir þetta líka eiga við um sjúkrahúsin í héruðunum. „Þau hafa engin lyf, ekkert súrefni og fólk deyr að ófyrirsynju. Fólk sem annars dæi ekki deyr vegna skorts á lyfjum, skorts á súrefni, skorts á grunnþjónustu.“

Yfir fimm milljónir manna eru heimilislausar vegna átakanna og því mikilvægt að mannúðarsamtökum verði hleypt inn í héraðið. Sophie bendir á að ofan á þetta bætist svo miklir þurrkar sem herja á allt landið. „Þetta eru einir mestu þurrkar sem sögur fara af. Í Eþíópíu kom út endurskoðuð viðbragðsáætlun við þurrkum í september. Samkvæmt henni eru 24,1 milljón íbúa sem þurfa aðstoð í Eþíópíu einni. En þurrkarnir herja líka á Sómalíu og Keníu.“

Hér má finna upplýsingar um mannúðarstarf og þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar.

Gjöf sem gefur aftur og aftur er tilvalin jólagjöf – laumaðu geit í pakkann! Þú getur líka gefið vatn!

Styrkja