Í mars og apríl síðastliðnum fjölgaði umsóknum um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar um 58,4% miðað við sama tímabil í fyrra. Síðustu tvo mánuði aðstoðaði Hjálparstarf kirkjunnar þannig 564 einstaklinga og fjölskyldur sem búa við fátækt samanborið við 356 fjölskyldur á sama tíma í fyrra . Aðstoðin fólst fyrst og fremst í því að fólkið fékk inneignarkort fyrir matvöru.

Hjálparstarf kirkjunnar aðstoðar fólk við lyfjakaup í neyðartilfellum og fjölgaði beiðnum um þá aðstoð einnig. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins hafa aðlagað þjónustuna eftir því sem aðstæður hafa breyst í samfélaginu vegna heimsfaraldursins af völdum Covid-19 og bjóða nú fólki sem er í viðkvæmri stöðu gagnvart veirunni að hafa samband símleiðis eða með því að senda tölvupóst.

„Við finnum að fólk er mjög kvíðið og viðtölin við hvern og einn sem hingað leitar eru því lengri og við fylgjum fólkinu betur eftir en áður. Það er nauðsynlegt að hlusta á fólk í þessu óvissuástandi og veita því sálrænan stuðning,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfsins.

„Við sjáum líka þá erfiðu aðstöðu sem útlendingar sem ekki tala íslensku eru í núna. Þrátt fyrir vandaða upplýsingagjöf stjórnvalda á ýmsum tungumálum þá virðast þær ekki ná til þeirra útlendinga sem til okkar leita. Þeir eru því í mikilli óvissu um það sem er að gerast í samfélaginu núna. Við þurfum sem samfélag að finna leið til þess að bæta úr þessu,“ segir Vilborg.

Bjarni Gíslason er framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar. Hann segist búast við því að umsóknum um efnislega aðstoð muni fjölga verulega með haustinu þegar skólarnir fara aftur af stað og uppsagnarfrestur þeirra sem nú hafa misst vinnuna er liðinn. „Við erum að undirbúa okkur fyrir aukið starf og aukinn fjölda umsókna um efnislega aðstoð. Við leggjum nú áherslu á að afla fjár til þess að geta sinnt starfinu hér heim og í Afríku þar sem þörfin verður síst minni á komandi mánuðum. Við höfum meðal annars sent valgreiðslubeiðni til fólks sem birtist í heimabanka. Sú fjáröflun hefur gengið vel. Við stefnum að því að safna 10 milljónum króna en söfnunin stendur nú í 6,7 milljónum. Við erum mjög þakklát þeim sem hafa lagt okkur lið.“

Á myndinni eru Júlía, Sædís og Vilborg, félagsráðgjafar Hjálparstarfs kirkjunnar.

Styrkja