Nú nálgast jólin óðfluga en aldrei er þörfin fyrir neyðaraðstoð Hjálparstarfsins eins mikil og einmitt í aðdraganda hátíðanna. Undanfarinn áratug hafa barnafjölskyldur leitað til Hjálparstarfsins á aðventunni í rúmlega fimmtán þúsund skipti.

Hjálparstarf kirkjunnar veitir fólki sem býr við fátækt á Íslandi efnislegan stuðning og félagslega ráðgjöf allt árið. Neyðaraðstoð felst fyrst og fremst í að aðstoða fólk til matarinnkaupa en einnig er veitt annars konar aðstoð.

Aldrei er þörfin eins áberandi og um jólin en starfsmenn Hjálparstarfsins eru þegar byrjaðir að undirbúa úthlutun í aðdraganda hátíðanna, sem er annasamasti tími ársins. Gera má ráð fyrir að fólk sem til Hjálparstarfsins verði síst færri en undanfarin ár. Margir eru í mjög erfiðri stöðu og því ekkert sem bendir til annars en að stór hópur leiti stuðnings fyrir komandi jól eins og undanfarin ár.

Þetta sést vel þegar lagst er yfir tölfræðina í bókum Hjálparstarfsins síðastliðin tíu ár. Þar kemur í ljós að í desember hafa barnafjölskyldur leitað til Hjálparstarfsins og fengið aðstoð í 15.544 skipti frá og meðtalið árinu 2015. Þessi tíu ár sýna jafnframt eindregna þróun en fyrri fimm árin voru þau sem til Hjálparstarfsins leituðu á milli tólf og fimmtán hundruð en seinni fimm árin töluvert fleiri eða sextán til átján hundruð.

Eins má taka fram að tölfræðin tekur aðeins til fjölda þeirra fjölskyldna sem til Hjálparstarfsins leita. Því er ljóst að jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar nær til þúsunda ár hvert og hefur náð til tugþúsunda þegar horft er þessi tíu ár aftur.

Börnin ganga fyrir

Sú regla er viðhöfð hjá Hjálparstarfinu við útdeilingu aðstoðar á aðventunni að barnafjölskyldur ganga fyrir við úthlutun. Því stendur stór barnahópur að baki þeim umsóknum sem Hjálparstarfinu berast á aðventunni. Það er reynsla félagsráðgjafa Hjálparstarfsins að hið minnsta séu þrjú börn að meðaltali að baki hverri fjölskyldu sem fær aðstoð. Kemur það til vegna þess að allstór hluti þeirra fjölskyldna sem fá aðstoð eru af erlendum uppruna og margar þeirra barnmargar. Má hiklaust gera ráð fyrir að um fimm þúsund manns, börn og fjölskyldur þeirra, hafi notið aðstoðar Hjálparstarfsins fyrir jólin undanfarin ár.

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og verkefnastýra innlendra verkefna hjá Hjálparstarfinu, metur stöðuna svo að ekkert bendi í raun til annars en enn þrengi að þeim hópi sem var fyrir í viðkvæmri stöðu.

Hún sagði fyrir jólin í fyrra ekki beint sjá fjölgun í þeim hópi sem leitar til Hjálparstarfsins, heldur að þau sem koma til að leita sér aðstoðar séu í miklu meiri vanda en áður. Vandi þeirra fjölskyldna sem hafa átt undir högg að sækja vex.

En vandi þeirra sem býr við fátækt er oft á tíðum djúpstæður og tengist áföllum fyrr á ævinni. Þetta einkennir stóran hóp fólks, alls ekki alla, sem kemur til Hjálparstarfsins. Það þarf því margt að breytast til að koma í veg fyrir fátækt, einmannaleika og félagslega einangrun.

„Einmannaleikinn er hræðilegur fylgifiskur fátæktar. Síðan myndast vítahringur sem börn sem búa við fátækt ná aldrei að rjúfa. Við erum að sjá þriðju og fjórðu kynslóð barna, einstaklinga, sem eru föst í fátæktargildru með öllu sem því fylgir. Þá erum við að tala um skólagöngu, styttri lífslíkur og fleira. Þetta eru ekki bara krónur og aurar heldur tekur fátæktin yfir öll lífsgæði fjölskyldna. Þetta sjáum við ítrekað í okkar daglegu störfum,“ sagði Vilborg og orð hennar eiga vel við nú sem fyrr.

Gjafir í þúsunda vís

Eitt af mikilvægustu verkefnum Hjálparstarfsins ár hvert er að miðla fallegum jólagjöfum til barna sem búa við fátækt, en þessi aðstoð kemur til viðbótar við þá aðstoð sem rædd er hér að ofan. Þessi jólin, eins og öll fyrri jól, skipta gjafirnar þúsundum sem starfsmenn og sjálfboðaliðar taka á móti og miðla áfram til stórs hóps barna.

Gjafirnar tryggja að undir jólatré í stofu fjölmargra fjölskyldna verður glaðningur sem ekki hefði verið þar að finna að öðrum kosti. Ef nákvæmni er gætt þá voru þær um þrjú þúsund talsins sem voru opnaðar á aðfangadag í fyrra af um 700 börnum sem búa við fátækt. Forráðamenn barnanna geta valið um tvær til fjórar gjafir fyrir hvert barn; leikfang, bók, spil eða hlýjan fatnað. Því til viðbótar geta margir valið smærri gjafir sem henta vel til þess að setja í skóinn í aðdraganda jóla, þó þær séu ekki taldar með hér.

Má nefna að styrktarsamfélag Hjálparstarfsins er víðfemt og gjafavara berst til stofnunarinnar jafnt og þétt yfir árið, þó flestar gjafirnar berist Hjálparstarfinu á aðventunni. Stór hluti þessara gjafa berast frá almenningi sem skilur þær eftir undir jólatrjánum í verslunarmiðstöðvunum Kringlunni og Smáralind. Þær berast auk þess frá einstaklingum, hópum sem koma saman í félagsstarfi hvers konar, fyrirtækjum og mörgum fleirum. Vinna við undirbúning jólagjafaúthlutunar hefst því mörgum vikum fyrir jól og að því starfi kemur hópur sjálfboðaliða í samstarfi við starfsfólk Hjálparstarfsins.

Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.

Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.

Styrkja