Hitabeltisstormurinn Freddy sem barði á suðurhluta Malaví um miðjan mars 2023 skildi eftir sig slóð eyðileggingar og manntjóns. Stormurinn hafði áhrif á líf 2,3 milljóna manna. Innviðir stórskemmdust víða um landið sunnanvert og vel á sjöunda hundrað þúsund manns hraktist frá heimilum sínum.

Í kjölfar hamfaranna í mars ákvað Hjálparstarf kirkjunnar að ganga til samstarfs við systurstofnanir sínar í Noregi (NCA) og Danmörku (DCA) um brýna neyðaraðstoð í Chikwawa-héraði þar sem Hjálparstarfið stendur að langtímaverkefni í þróunarsamvinnu. Þótti þetta góð lausn þar sem NCA og DCA starfa í Malaví og hófu hjálparstarf sitt á hamfarasvæðum strax eftir að veðrinu slotaði.

Aðstoðin fólst fyrst og fremst í því að tryggja lífsviðurværi fólks og aðgengi þess að vatni og hreinlætisaðstöðu. Til verkefnisins lagði Hjálparstarfið 15,2 milljónir íslenskra króna í byrjun maí 2023. Þar af var framlag utanríkisráðuneytisins 14,5 milljónir króna.

Þúsundir eiga um sárt að binda

Neyðaraðstoð Hjálparstarfsins vegna hitabeltisstormsins er lokið en fólk á stóru svæði í suðurhluta landsins á þó enn um sárt að binda. Í uppgjörsskýrslu samstarfsaðila Hjálparstarfsins segir að 2,3 milljónir manna hafi orðið fyrir barðinu á Freddy og tæplega 660.000 þeirra hafi hraksit frá heimilum sínum, aðallega vegna flóða. Þegar lokaskýrslu verkefnisins var lokað 15. nóvember 2023 var staðfest að 679 fórust og 537 enn saknað.

Afleiðingar hitabeltisstormsins eru enn ekki að fullu ljósar en voru strax í upphafi slíkar að Lazarus Chakwera, forseti Malaví, lýsti yfir neyðarástandi og síðar fjórtán daga þjóðarsorg í kjölfar eyðileggingarinnar. Þá strax ákváðu íslensk stjórnvöld að verja 500.000 Bandaríkjadölum – jafnvirði 71 milljóna króna – til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, vegna neyðarástandsins. Framlagið nýttist stjórnvöldum í Malaví til björgunaraðgerða, við flutning á neyðargögnum og til þess að kaupa mat fyrir þær þúsundir sem reiddu sig á matvælastuðning eftir hamfarirnar.

Víða í landinu stórskemmdust opinberar byggingar; skólar, sjúkrahús sem og samgöngumannvirki. Eins raforkumannvirki, vatnsveitukerfi, uppskera tapaðist og ræktarland eyðilagðist í stórum stíl. Það gerir stöðu margra enn alvarlegri þegar til lengri tíma er litið en tugþúsundir hektara ræktarlands skoluðust burt í flóðunum.

Vikurnar eftir storminn höfðust um 650.000 manns við í tæplega 600 búðum sem settar voru upp fyrir þau sem gátu ekki snúið heim vegna flóða, skriðufalla og mikið skemmdra innviða í landinu. Öll sem þurftu að flýja heimili sín hafa tapað miklu; margir aleigunni.

Þungamiðja neyðaraðstoðar Hjálparstarfsins var í Chikwawa héraði, eins og áður sagði vegna þróunarsamvinnuverkefnisins sem hófst í ársbyrjun 2023. Í ljósi hamfaranna er ástæða til að hnykkja á tilgangi þess verkefnis sem er að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn öfgum í veðri af völdum loftslagsbreytinga og tryggja lífsviðurværi og fæðuöryggi fólks eins vel og mögulegt er.

„Þar er ekki síst horft til þess að grípa til varna þar sem veðuröfgar ganga harkalega á ræktarland, bæði vegna flóða og þurrka,“ eins og segir í verkefnislýsingu.

Í Chikwawa héraði einu hafði hitabeltisstormurinn neikvæð áhrif á líf 28.000 fjölskyldna. Rúmlega 26.000 þeirra þurftu að flýja heimili sín til einhverra þeirra 52 búða sem settar voru upp í héraðinu. Alls er talið að svo hafi átt við um 112.000 manns en mörg þeirra glímdu þá þegar við mikla erfiðleika vegna fátæktar, veikinda og bágrar félagslegrar stöðu.

Viðkvæm staða kvenna og stúlkna

Neyðaraðstoð Hjálparstarfsins náði yfir fjögurra mánaða tímabil frá maí 2023 og til ágústloka. Aðstoðin fólst fyrst og fremst í því að tryggja lífsviðurværi fólks og aðgengi þess að vatni og hreinlætisaðstöðu. Þau gengu fyrir sem voru veikust fyrir og því sérstaklega hugað að fólki með fötlun, börnum, eldra fólki, barnshafandi konum og konum með börn á brjósti. Aðstoð við þennan hóp var margþætt en ekki síst bein fjárhagsaðstoð hugsuð sem hjálp til sjálfshjálpar.

Til að tryggja aðgengi að vatni var með fulltingi staðaryfirvalda ráðist í nákvæma greiningu á ástandi borhola í héraðinu. Kom í ljós að 29 borholur í Chikwawa, sem alla jafna þjóna tugum þúsunda íbúa, þörfnuðust viðgerða og viðhalds vegna hamfaranna. Tókst að gera við 26 þeirra og koma á fullri virkni að nýju.

Brunnar sem þessir eru lífsnauðsynlegir fólkinu á verkefnasvæði Hjálparstarfsins og því mikil áhersla lögð á að gera við borholur sem skemmdust í flóðunum.

 

 

 

Kven­miðuð neyð­ar­að­stoð var mikilvægur þáttur í verkefninu enda sýnir reynslan að konur og stúlkur þurfa oft tilfinnanlega á aðstoð að halda þegar neyðarástand varir. Sæmdarsettum var dreift til 200 stúlkna á unglingsaldri og mæðra með börn á brjósti. Sæmdarsettin innihéldu tíðarvörur og margt smálegt eins og sápu, salernispappír, tannbursta og tannkrem en jafnframt nærfatnað. Þessum vörum var dreift til kvenna og stúlkna í búðunum og létti þeim lífið á meðan að dvöl þeirra stóð. Til viðbótar við sæmdarsettin fengu fjölskyldur helstu nauðsynjar til að auðvelda þeim daglegt líf, bæði til að matast og hvílast.

Upplýsingagjöf til þeirra sem voru á vergangi var sinnt sérstaklega með því að setja á fót sérstakar miðstöðvar innan búðanna. Þeir sem önnuðust upplýsingagjöf jöfnum höndum voru félagsráðgjafar og starfsmenn löggæsluyfirvalda. Þetta var ekki síst gert vegna þeirrar vissu að í neyðarástandi sem skapast vegna náttúruhamfara eða stríðsátaka er líkamlegt ofbeldi og kynferðisleg misnotkun gagnvart konum og stúlkum jafnan fylgifiskur.

Undir lok verkefnistímans var neyðaraðstoðin tekin út  – var kannað hvað hafði tekist vel og hvað miður. Þá vinnu önnuðust fulltrúar frá systursamtökum Hjálparstarfsins í Noregi og Danmörku (NCA og DCA). Niðurstaða þeirra var að heilt yfir séð hafi markmiðum verkefnisins verið náð og í nokkrum verkþáttum hafi árangurinn verið umfram væntingar.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja