Á hverju hausti leita fjölmargar barnafjölskyldur til Hjálparstarfs kirkjunnar þegar skólastarf er við það að hefjast. Ástæðan er einföld og ávallt sú sama. Þau sem minnst hafa handa á milli þurfa aðstoð við að útvega börnum sínum það sem öll börn þurfa þegar skólar hefjast; góða skólatösku, fatnað, ritföng og fleira. Í fyrrahaust leituðu 127 fjölskyldur til Hjálparstarfsins við upphaf skólastarfs og börnin sem fengu aðstoð voru 311 talsins.
Þróun efnahagsmála undanfarin ár hefur haft sérstaklega neikvæð áhrif á afkomu þeirra sem fyrir stóðu höllum fæti í samfélaginu. Umsóknum til Hjálparstarfsins frá fjölskyldum í fjárhagslegum erfiðleikum hefur fjölgað og oftar en ekki er byrði húsnæðiskostnaðar um að kenna, sem er reyndar gömul saga og ný. Slík staða bitnar á þeim sem síst skyldi en börn eru stór hluti þeirra sem njóta góðs af þeirri aðstoð sem Hjálparstarfið getur veitt.
Bjallan hringir inn
Skólastarf er að hefjast og nú í ágúst leggur Hjálparstarfið því sérstaka áherslu á að aðstoða efnalitla foreldra í upphafi skólaárs til þess að koma í veg fyrir félagslega einangrun barna. Foreldrar fá þá aðstoð svo börnin geti stundað íþróttir og tómstundastarf með jafnöldrum sínum – óháð efnahag. Börnin fá einnig vetrarfatnað, íþróttafatnað og -töskur, ritföng til að nota heima við, nestisbox og skólatösku.
Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi sem hefur umsjón með innanlandsstarfi Hjálparstarfsins, útskýrir að Hjálparstarfið hafi um langt árabil aðstoðað foreldra sem eiga börn á þessum tímamótum sem upphaf skólagöngu er. Sérstök haustsöfnun í tilefni þess að skólastarf er að hefjast kom til árið 2017, en fram til þess tíma hafi Hjálparstarfið notið stuðnings fjölda aðila við að létta undir með foreldrum skólabarna.
Mikilvægum áfanga var náð þegar sveitarfélögin samþykktu að bjóða öllum nemendum gjaldfrjáls skólagögn og skólamáltíðir. Það breytti myndinni þó ekki nema að takmörkuðu leyti fyrir þá sem verst standa, þó aðgerðin hafi vissulega verið til bóta. Öll börn og ungmenni eiga að stunda sinn skóla án þess að fjölskyldur þeirra þurfi að bera af því kostnað,“ hefur Vilborg bent á og vísar til þess að fjölskyldur 16 til 18 ára barna bera kostnað sem réttmætt má telja að væri greiddur eins og í tilfelli yngri barna. Sérstaklega er þetta mikilvægt þar sem þessi aldurshópur krefst ýmiss kostnaðar sem fellur ekki til fyrr á ævinni og hópurinn er ekki allur svo heppinn að komast í uppgrip yfir sumarið. Þá er brottfall úr skóla áhyggjuefni sem mikið er rætt og aðgerð sem þessi getur unnið gegn því að ungmenni flosni upp úr skóla, að mati Vilborgar og vísar til reynslu sinnar í viðtölum við fjölskyldufólk í störfum sínum sem félagsráðgjafi um langt árabil.
Yfir 300 börn fengu aðstoð í fyrra
Samtals fékk foreldri 311 grunnskólabarna (127 fjölskyldur) fyrir þau skólatöskur, ritföng og nestisbox í upphafi skólaárs haustið 2024. Fjölmörg börn og unglingar yngri en 18 ára fengu auk þess styrk til þess að stunda íþróttir, listnám og tómstundastarf með jafnöldrum sínum. Sjaldan hafa jafn margir sótt um aðstoð til Hjálparstarfsins vegna skólabyrjunar, og ekkert bendir til annars en hópurinn sem sækir um á hausti komanda verði áþekkur að stærð.
„Það er hópur einstaklinga sem á ekki fyrir skólatösku, útifötum og öðru slíku sem þarf þegar skólinn er að byrja. Þetta sjáum við skýrt en aðsókn eftir aðstoð til að kosta tómstundir barna og unglinga hefur líka verið að aukast og fyrir því liggja ýmsar ástæður. Þegar haustið kemur þá eru allir búnir með frístundastyrkinn sinn. Þá gerist það oft að krakkar hætta í íþrótta- eða tómstundastarfi, allt þar til það kemur nýr frístundastyrkur. Þess vegna erum við að safna fjármagni til að hjálpa fólki til að greiða haustgjöldin,“ segir Vilborg en komið hefur fram að í tilfellum meira en þúsund barna í Reykjavík er frístundakort þeirra nýtt til að greiða fyrir frístundaheimili og í tilfelli fjölmargra barna er frístundastyrkur þeirra notaður til að greiða fyrir íslenskukennslu.
Heltast úr lestinni
Vilborg og aðrir félagsráðgjafar Hjálparstarfsins sjá ítrekað að börn byrja í janúar í íþrótta- eða tómstundastarfi en þegar tími keppnisferða gengur í garð þá heltast krakkarnir úr lestinni og bera fyrir sig einhverjar afsakanir í stað þess að viðurkenna að það séu ekki til peningar á heimilinu og þau komist ekki með. Íþróttafélög bjóða mörg upp á félagslega styrki en foreldrar eru ekki allir meðvitaðir um það eða finnst erfitt að fara þess á leit að fá slíka styrki eða niðurfellingu á gjöldum. Svo eru það sumarferðirnar þar sem kostnaður í tilfelli stórra fjölskyldna er sligandi. Vilborg tilgreinir dæmi þar sem faðir með fjögur börn leitaði til Hjálparstarfsins og viðurkenndi að hann þurfti að fjármagna þátttöku þeirra í mótahaldi með lántökum enda hlaupi kostnaðurinn á hundruðum þúsunda.
Vilborg telur að frístund barna eigi að vera gjaldfrjáls, enda hluti af skólastarfinu. Aðstoð við heimanám og slíkt í frístundinni sé einfaldlega hluti af því að vera í skóla. Margir foreldrar nýta styrkinn til að greiða fyrir frístundina í skólanum og þeim börnum stendur því ekki til boða að taka þátt í íþrótta- eða tómstundastarfi, tónlistarskóla eða dansi eftir skólatíma, þegar búið er að nota styrkinn í annað.
„Ég hef reynt að koma því á framfæri hvernig ég sé þetta. Það er að börn á Íslandi fái eina tómstund að eigin vali fría. Þá er ég að tala um æfingagjöldin, það sem kostar að fara í ferðirnar og annað. Velji foreldrar að börnin fái fleiri en eina tómstund þá borga þau það úr eigin vasa. Þetta er lýðheilsumál, forvarnamál og myndi jafna stöðu barna til mikilla muna,“ segir Vilborg sem telur eðlilegt að ríkið komi að verkefninu með sveitarfélögunum. Íþróttafélögin ættu líka að hætta að merkja íþróttaföt með nöfnum barnanna, svo hægt sé að endurnýta þau.
Vilborg segir erfitt að meta hvort frekari aukning verði á umsóknum þetta haustið. Ekkert bendi þó til annars en að þörfin sé mikil og húsnæðiskostnaður heimilanna sé viðvarandi vandamál. Draga megi þá ályktun að mörg fjölskyldan kvíði haustinu.
Mega ekki einangrast
Markmið Hjálparstarfsins með sérstakri aðstoð í skólabyrjun ár hvert er að börn einangrist ekki vegna bágs efnahags fjölskyldunnar. Þekkt er að börn sem búa við fátækt eru útsett fyrir félagslegri einangrun sem getur valdið þeim sársauka og haft langvarandi félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar.
Stundum þarf svo lítið til, segir Vilborg. Áföll sem í margra augum eru smávægileg geta haft alvarlegar afleiðingar á þessum viðkvæma tíma í lífi hvers barns. Þess vegna er afar mikilvægt að lágmarka hættuna á því að börnin sjái skólann í neikvæðu ljósi í upphafi skólagöngu.
„Það getur haft mikil áhrif síðar á ævinni,“ segir Vilborg.