SIÐAREGLUR HJÁPARSTARF KIRKJUNNAR

Tilgangur siðareglna

  1. Að veita stjórn og starfsfólki stofnunarinnar stuðning til faglegrar og ábyrgrar vinnu.
  2. Að veita stjórn og starfsmönnum siðleg viðmið um breytni umfram hreinar lagalegar skyldur.
  3. Að upplýsa um gildi sem móta starfið og styrkja þannig ímynd stofnunarinnar og traust almennings á starfi hennar.

 

Við berum ábyrgð

  1. Starfsmenn sýna skjólstæðingum heima og heiman, styrktaraðilum, samstarfsmönnum og öðrum sem þeir eiga í samskiptum við, virðingu, sanngirni og trúnað.
  2. Hjálparstarfið veitir aðstoð á grundvelli þarfar án tillits til hverjir viðtakendur eru og hver sé orsök neyðarinnar.
  3. Hjálparstarf kirkjunnar veitir aðstoð til sjálfshjálpar og virkjar skjólstæðinga eins og mögulegt er, í öllu ferli aðstoðar.
  4. Reglur um aðstoð eru skýrar og fúslega veittar.
  5. Hjálparstarf kirkjunnar starfar í anda kristinnar trúar og virðir trú, menningu og venjur móttakenda. Engar trúar- eða menningarvenjur verða þó taldar ofar grundvallarmannréttindum eins og þau eru skilgreind í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
  6. Hjálparstarf kirkjunnar leitast af fremsta megni við að vera gegnsætt í starfi sínu og veita ávallt faglegar og réttar upplýsingar og vera skýrt í skilgreiningum.
  7. Hjálparstarf kirkjunnar er aldrei verkfæri stjórnvalda hvorki íslenskra né erlendra.

 

Ábyrgð starfsmanna, stjórnar, fulltrúaráðs

  1. Starfsmenn, stjórn og fulltrúar virða hver annan og styðja, miðla upplýsingum og stuðla að framgangi verkefna en ekki sínum eigin.  Þeir gangast undir siðareglur þessar og veita hver öðrum jákvætt aðhald til að halda þær.
  2. Starfsmenn, stjórn og fulltrúar veita ekki fyrirgreiðslu vegna persónulegra tengsla eða vensla og nýta ekki trúnaðarupplýsingar í eiginhagsmunaskyni.
  3. Kynferðisáreiti og einelti er ekki liðið.  Stofnunin hefur sett sér verklagsreglur um meðferð slíkra mála.
  4. Starfsmenn forðast að taka að sér verkefni sem samræmast ekki skyldum eða starfi þeirra hjá stofnuninni. Í vafa skal leita samþykkis stjórnar.

 

Ábyrg fjármál

  1. Hjálparstarf kirkjunnar hefur sett sér reglur um meðferð og miðlun fjármuna sem stofnunin aflar og ver.
  2. Starfsfólk er meðvitað um að það vinnur með almannafé og gætir ráðdeildar í hvívetna.
  3. Upplýsingar um tekjur og ráðstöfun eru gegnsæjar, settar fram á einfaldan og skýran máta.
  4. Við gætum trúnaðar um gefendur og fjárhæðir þegar þess er óskað.
  5. Hjálparstarf kirkjunnar aflar ekki fjár með vafasömum hætti og tekur ekki við styrkjum frá aðilum eða starfsemi sem vinnur gegn markmiðum stofnunarinnar.

 

Viðbrögð við brotum á siðareglum

  1. Leiki grunur á því að starfsmenn eða sjálfboðaliðar hafi brotið siðareglur þessar skal hver sem þess verður var, tilkynna það framkvæmdastjóra eða stjórnarmanni. Eigi stjórnarmenn í hlut skal málið tilkynnt biskupi Íslands.
  2. Tryggt skal að sá sem tilkynnir meint brot beri ekki skaða af því persónulega eða á vinnustað.
  3. Skjólstæðingar geta öruggir komið á framfæri kvörtun til félagsráðgjafa eða framkvæmdastjóra telji þeir á sér brotið samkvæmt siðareglum stofnunarinnar.

HEFUR ÞÚ ÁHUGA Á AÐ VINNA MEÐ OKKUR

Styrkja