1. gr.
Hjálparstarf kirkjunnar er sjálfseignarstofnun sem stofnuð er af Þjóðkirkju Íslands árið 1969 og starfar á hennar vegum. Heimili og varnarþing er í Reykjavík. Biskup Íslands er verndari stofnunarinnar. Merki hennar er fiskur og kross í skál, blátt að lit.
2. gr.
Stofnunin er aðili að hjálparstarfi Lútherska heimssambandsins, Alkirkjuráði og alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna (ACT Alliance). Jafnframt getur stofnunin starfað með innlendum og erlendum kirkjum, innlendum og erlendum félagasamtökum, mannúðar- og hjálparsamtökum. Á erlendum málum er heiti stofnunarinnar: Icelandic Church Aid, skammstafað ICA, og Kirkens Nödhjelp i Island.
3. gr.
Stofnfé stofnunarinnar var við setningu skipulagsskrár fyrir hana þann 19. desember 1989 300.000, – þrjú hundruð þúsund krónur. Upphaflegt stofnfé var lagt var fram af prestum þjóðkirkjunnar, sbr. samþykkt prestastefnu 1969.
4. gr.
Hlutverk Hjálparstarfs kirkjunnar er að starfrækja mannúðar- og hjálparstarf í nafni íslensku þjóðkirkjunnar innanlands sem utan og fræða íslenskan almenning um það á ýmsum vettvangi. Stofnunin setur saman og miðlar markvisst fræðsluefni um hjálparstarf til barna, unglinga og fullorðinna í gegnum skóla og kirkjur og gerir þannig hjálparstarfið sýnilegra. Hlutverk Hjálparstarfs kirkjunnar er meðal annars rækt með eftirfarandi hætti:
A. Innanlands
- Að veita aðstoð í neyðartilfellum.
- Að greina vanda og veita félagslega ráðgjöf og efnislega aðstoð ásamt því að beina skjólstæðingum þangað sem þeir geta vænst aðstoðar sem stofnunin veitir ekki beint.
- Að leitast við að afla nákvæmra upplýsinga um einstaklinga og málefni sem ástæða er til að styrkja, í sem nánustu samráði við presta, félagsþjónustu og aðra tengda aðila.
- Að vera prestum, djáknum, söfnuðum og líknarfélögum til aðstoðar í líknarþjónustu þeirra og vinna með þeim að sameiginlegri úrlausn mála einstakra skjólstæðinga.
- Að upplýsa almenning og stjórnvöld um kjör þeirra sem eru í nauðum staddir og vera málsvari þeirra.
B. Erlendis
- Að veita fátækum og flóttafólki neyðar- og þróunaraðstoð.
- Að stuðla að því að mannréttindi séu virt.
- Að vinna með íslenskum stjórnvöldum og fagaðilum að auknum stuðningi við þróunaraðstoð og árangri í þróunarstarfi.
- Að vera talsmenn undirokaðra gagnvart íslenskum almenningi og stjórnvöldum.
C. Fræðsla
Til þess að ná þessum markmiðum skal Hjálparstarf kirkjunnar standa fyrir fræðslustarfi. Þar skal stefnt að því að fræða landsmenn um neyðar-, þróunar-, mannúðar- og mannréttindamál. Jafnframt skal veita landsmönnum upplýsingar um hjálparstarf stofnunarinnar á hverjum tíma. Ennfremur skal leitast við að fræða um sérstöðu Hjálparstarfs kirkjunnar sem kirkjulegrar stofnunar og kenna grundvallaratriði í afstöðu kristinna manna til þurfandi meðbræðra.
5. gr.
Hjálparstarf kirkjunnar veitir aðstoð sína án tillits til hverjir viðtakendur eru og hver sé orsök neyðarinnar.
6. gr.
Enginn getur krafist aðstoðar frá Hjálparstarfi kirkjunnar.
7. gr.
Tekjur Hjálparstarfs kirkjunnar eru m.a.:
- a) Framlög styrktarmanna, fyrirtækja og opinberra aðila.
- b) Tekjur af almennum söfnunum.
- c) Framlög frá einstaklingum og stofnunum.
- d) Vaxtatekjur og fleira.
8. gr.
Fé, sem safnað er til sérstakra verkefna, skal renna til þeirra óskipt að frádregnum söfnunarkostnaði og framlagi í rekstrar- og fræðslusjóð. Fé stofnunarinnar skal ávaxta á sem hagkvæmastan hátt. Reikningsyfirlit hverrar einstakrar söfnunar, þ.e.a.s. yfirlit yfir innkomið söfnunarfé, kostnað, laun og ráðstöfun fjárins, skal fært sérstaklega í bókhaldi stofnunarinnar sem sjálfstæð eining. Stjórn stofnunarinnar skal sjá um að birta reikningsyfirlit einstakra safnana í samræmi við fyrirmæli gildandi laga um opinberar fjársafnanir hverju sinni.
9. gr.
Rekstrar- og stjórnunarkostnaður Hjálparstarfs kirkjunnar, skal greiddur úr rekstrarsjóði. Tekjur sjóðsins eru.
- a) Að jafnaði 8% af öllu söfnunarfé. Hlutfall verði ákvarðað hverju sinni af stjórn.
- b) Framlög opinberra aðila.
- c) Framlög fyrirtækja, stofnana, sókna og sóknarpresta.
- d) Fjármagn, sem fæst eftir sérstökum fjáröflunarleiðum.
- e) Vextir
Allt annað söfnunarfé skal renna í almennan söfnunarsjóð. Í bókhaldi skal tilgreint í hvaða verkefni söfnunarfé skuli varið.
Um fulltrúaráð og stjórn
10. gr.
Yfirstjórn Hjálparstarfs kirkjunnar er í höndum fulltrúaráðs, sem þannig er skipað:
- a) Fimm menn skipaðir af kirkjuráði til tveggja ára. Tveir varamenn eru skipaðir með sama hætti.
- b) Hvert prófastsdæmi landsins kýs einn mann í fulltrúaráð og annan til vara. Skulu þeir kjörnir á héraðsfundum til tveggja ára í senn.
- c) Hverri sókn er heimilt að tilnefna einn mann í fulltrúaráð og annan til vara. Skulu þeir tilnefndir af sóknarnefnd til tveggja ára í senn. Í prestaköllum þar sem búa færri en 2000 manns geta sóknir prestakallsins sameinast um einn fulltrúa.
11. gr.
Stjórn fulltrúaráðsins skal kosin á aðalfundi stofnunarinnar. Kjósa skal formann og tvo aðra til eins árs í senn. Formaður skal vera úr hópi þeirra sem skipaður er af kirkjuráði. Í varastjórn skal kjósa tvo menn til eins árs í senn. Fulltrúaráð kýs tvo skoðunarmenn til eins árs í senn. Fulltrúaráðið setur stjórninni og skoðunarmönnunum starfsreglur.
12. gr.
Stjórnin ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar. Hún heldur eigi færri en átta fundi árlega. Afl atkvæða ræður úrslitum á öllum fundum.
13. gr.
Stjórnin ræður framkvæmdastjóra stofnunarinnar, ákveður ráðningarkjör hans og setur honum erindisbréf. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur stofnunarinnar, gætir fjár hennar og annast greiðslur hennar samkvæmt ákvörðun stjórnar svo sem nánar er tilgreint í erindisbréfi hans. Framkvæmdastjóri gerir ár hvert í samráði við stjórn, starfs- og fjárhagsáætlun fyrir komandi reikningsár og kynnir á aðalfundi.
14. gr.
Reikningsárið er frá 1. júlí til 30. júní og skulu reikningar, endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og kjörnum skoðunarmönnum, lagðir fram á aðalfundi til umræðu og samþykktar.
Um aðalfund og aðra fundi
15. gr.
Fulltrúaráð skal koma saman til fundar a.m.k. tvisvar sinnum á ári, á fyrri og síðari árshelmingi og skal síðari fundurinn vera aðalfundur stofnunarinnar. Til aðalfundar skal boðað með bréfi eða tölvupósti til hvers fulltrúa með 14 daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað.
Rétt til setu á aðalfundi eiga:
- a) Fulltrúaráð.
- b) Verndari stofnunarinnar.
- c) Fráfarandi stjórnarmenn, þeir sem ekki eru lengur í fulltrúaráði með málfrelsi og tillögurétt, meðan fjallað er um skýrslu stjórnar og reikninga.
- d) Framkvæmdastjóri með málfrelsi og tillögurétt.
Dagskrá aðalfundar
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Lesin upp nöfn þeirra sem rétt eiga til fundarsetu.
- Starfsskýrslur undanfarins árs.
- Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
- Breytingar á skipulagsskrá ef fyrir liggja, enda hafi þess verið getið í fundarboði.
- Starfs- og fjárhagsáætlun næsta árs kynnt.
- Stjórnarkjör samkvæmt 11. gr.
- Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga stofnunarinnar.
- Önnur mál.
Afl atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi. Aukafund skal halda þegar þurfa þykir eða ef helmingur fulltrúaráðs óskar þess.
16. gr.
Héraðskjörnir fulltrúaráðsmenn skulu leggja fram skýrslu á héraðsfundum um starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar. Kjörnir fulltrúar skulu ásamt sóknarprestum vera tengiliðir safnaða og Hjálparstarfs kirkjunnar.
17. gr.
2/3 hlutar fulltrúaráðs geta ákveðið að leggja Hjálparstarf kirkjunnar niður og skulu þá allar eigur hennar renna til líknarmála á vegum kirkjunnar, eftir nánari ákvörðun stjórnar og fulltrúaráðs.
18. gr.
Tillögur um breytingar á skipulagsskrá þessari ná fram að ganga, ef þær hljóta fylgi 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi og staðfestingu hlutaðeigandi stjórnvalda.
Skipulagsskrá þessi var samþykkt á aðalfundi Hjálparstarfs kirkjunnar 24. september 2011 og kemur í stað skipulagsskrár stofnunarinnar samþykkt á aðalfundi 30. júní 1989 með síðari breytingum.