Hjálparstarf kirkjunnar hefur ráðið Rósu Björgu Brynjarsdóttur til starfa sem verkefnisstýru opins húss fyrir konur sem ekki eiga í örugg hús að venda á daginn.

Undirbúningur verkefnisins gengur vel en stefnt er að því að húsið opni um áramót og verður það opið alla virka daga. Verkefnið er unnið í anda skaðaminnkandi nálgunar þar sem markmiðið er fyrst og fremst að auka lífsgæði kvennanna og verður hverri konu sem þangað leitar mætt af virðingu og kærleika. Biskups Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, átti frumvæði að verkefninu og er það fjármagnað af Kirkjumálasjóði.

Rósa Björg er grunnskólakennari að mennt með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og diplómu á meistarastigi í sálgæslu. Auk þess að hafa sótt námskeið á vegum Rauða kross Íslands um örugga sprautunotkun, skaðaminnkun og skyndihjálp hefur hún sótt námskeið í breytingastjórnun, sálgæslu og áfallahjálp. Rósa Björg hefur öðlast fjölbreytta þekkingu á skaðaminnkandi hugmyndafræði og alhliða reynslu af starfi með konum sem eiga ekki í nein hús að venda í Konukoti.

Rósa Björg mun móta og leiða starfsemina í opnu húsi fyrir konur sem eiga ekki í örugg hús að venda á daginn í samvinnu við aðra fagaðila og stofnanir. Í starfinu felst samráð við konurnar og samfylgd með þeim, ráðgjöf og einstaklingsstuðningur, mat á félagslegum aðstæðum kvennanna og aðstoð við að finna einstaklingsmiðuð úrræði. Í starfi verkefnisstýru felst einnig kynning á starfinu.

Á myndinni eru Rósa Björg Brynjarsdóttir, nýráðin verkefnisstýra opins húss fyrir konur sem ekki eiga í örugg hús að venda á daginn, og Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.

Styrkja