Í byrjun júlí sendi Hjálparstarf kirkjunnar 10.6 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi. Átök hafa geisað í landinu í rúman áratug en kórónuveirufaraldurinn hefur enn aukið á sára neyð fólksins þar.

Að mati Sameinuðu þjóðanna þurfa nú um ellefu milljónir íbúa á aðstoð að halda og rennur fjárframlagið til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins sem leggur áherslu á að vernda líf og heilsu íbúanna og að veita börnum jafnt sem fullorðnum sálfélagslegan stuðning.

Framlagið er að meðtöldum stuðningi utanríkisráðuneytisins sem veitti Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð tíu milljónir króna til að sinna hjálparstarfi í Sýrlandi á árinu 2021. Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi ráðuneytisins, sent fjárframlag til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga sem nemur 118 milljónum króna.

Styrkja