Hjálparstarf kirkjunnar hóf neyðarsöfnun vegna náttúruhamfaranna í Tyrklandi og Sýrlandi stuttu eftir að jarðskjálftarnir stóru riðu yfir. Þá þegar var ljóst að þúsundir höfðu farist og tugþúsundir ættu um sárt að binda. Öllum var ljóst að hamfarirnar eru af þeirri stærðargráðu að alþjóðleg neyðaraðstoð væri aðkallandi.

Nú rúmum þremur sólarhringum eftir að fyrsti skjálftinn reið er vitað að um 20 þúsund manns fórust. Á sama tíma er ljóst að þessi dapurlega tölfræði á eftir að versna og hundruð þúsunda eiga um sárt að binda.

Hjálparstarfið mun leggja til að lágmarki ellefu milljónir króna til hjálparstarfsins. Systurstofnanir Hjálparstarfsins innan Alþjóðlegs hjálparstarfs kirkna – ACT Alliance – munu ráðstafa söfnunarfénu þar sem neyðin er sárust.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur þegar viðrað þær áhyggjur sínar að mun fleiri hafi látist beggja vegna landamæranna í Tyrklandi og Sýrlandi. Til að bæta gráu ofan á svart ríkir vetur á hamfarasvæðunum og vonir til þess að fólk sé ennþá á lífi í rústunum eru vart raunhæfar.

Borgarastríðið í Sýrlandi, sem hefur staðið í tólf ár, gerir landið sérstaklega viðkvæmt fyrir áföllum. Hins vegar berast ekki áreiðanlegar fréttir frá landamærahéruðum Sýrlands þar sem áhrif skjálftanna voru mest. Enginn þarf þó að velkjast í vafa um að í Sýrlandi og Tyrklandi eiga hundruð þúsunda manna um sárt að binda.

Neyðin er slík að aðstoð þarf frá öllum sem hana geta veitt.

Hægt er að leggja starfinu lið með margvíslegum hætti. 

Ein leið er að hringja snöggvast í söfnunarsímann 907 2003 (2500 krónur).

Styrkja