Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með sárafátæku fólki í Sómalífylki í  Eþíópíu. Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með umhverfisvernd og bættum aðferðum í landbúnaði og að styrkja stöðu kvenna.

Sómalífylki er eitt af fátækustu fylkjum í Eþíópíu sem er meðal fátækustu ríkja heims. Fylkið þekur 327 þúsund ferkílómetra og þar búa yfir 5 milljónir sjálfsþurftarbænda og hálfhirðingja. Tíðir þurrkar valda viðvarandi matarskorti og vannæringu í fylkinu og fátæktin veldur því að grunnstoðir samfélagsins eru veikar.

Með stuðningi frá einstaklingum, samtökum, fyrirtækjum og stjórnvöldum á Íslandi hefur Hjálparstarfið verið í þróunarsamvinnu með íbúum í Sómalífylki fyrir milligöngu Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu í rúm 15 ár. Innlent starfsfólk hefur stýrt starfinu enda er það kunnugt staðháttum og þekkir sögu og menningu fólksins á svæðinu.

Vegna þurrka er sífellt lengra niður á grunnvatnið og því er víða ógerlegt að byggja brunna. Þá er brugðið á það ráð að hlaða vatnsþró fyrir regnvatn.

Í þau ár sem verkefnið hefur varað hafa brunnar verið grafnir og þar sem það hefur ekki verið mögulegt hafa verið grafnar vatnsþrær (birkur) fyrir regnvatn. Stíflur og veggir í árfarvegum hafa verið reist til að halda regnvatni í farvegi og hefta eyðimerkurmyndun, nýjar og þurrkþolnari korntegundir hafa verið kynntar til sögunnar sem og skilvirkari ræktunaraðferðir og betri verkfæri. Dýraliðar hafa verið þjálfaðir til að meðhöndla dýrasjúkdóma og bólusetja búfé.

Konur hafa tekið þátt í sparnaðar- og lánahópum og fengið fræðslu um það hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hafa margar kvennanna hafið rekstur og reka litla búð, stunda geita- og hænsnarækt og rækta grænmeti. Konur sem hafa tekið þátt í verkefninu tala um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt á verkefnasvæðunum áður en samvinnan hófst.

Þegar árangur hefur náðst í einu héraði fylkisins færum við okkur um set og vinnum með fólki í nágrannahéruðum. Í upphafi árs 2021 og til ársloka 2024 áætlar Hjálparstarfið að starfa með um 21 þúsund íbúum í Kebribeyahhéraði með frábærum stuðningi frá stjórnvöldum og almenningi á Íslandi.

Með bættu aðgengi að vatni geta sjálfsþurftarbændur á svæðinu aukið fæðuöryggi sitt til muna.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja