Ávöxtur vel heppnaðs þróunarsamvinnuverkefnis er að þátttakendur geti staðið á eigin fótum og bætt líf sitt og afkomu. Stærsta verkefni Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu er með sárafátæku fólki á þurrkasvæðum í Eþíópíu. Stór þáttur í verkefninu er að efla völd og áhrif kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.

Sex úlfaldar og 30 geitur
Mariam tók þátt í verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Sómalífylki í Eþíópíu árið 2014. Hún var þátttakandi í námskeiði fyrir konur um nýsköpun og smárekstur. Farið var í gegnum mikilvæga þætti í því að skapa sér tækifæri og afla tekna. Hún fékk síðan örlán til að opna litla búð. Mariam er dugnaðarforkur og viðskiptin blómstruðu. Í dag er hægt að fá fjölbreyttar vörur og þjónustu í búðinni, meðal annars er hægt að fá saumuð á sig föt og að hlaða farsíma eða kaupa sólarrafhlöður til að geta hlaðið síma og fyrir ljós á heimilum.

Mariam var fyrsta konan á sínu svæði til að kaup úlfalda, en hún á nú sex úlfalda og 30 geitur. Mariam er stórkostleg fyrirmynd fyrir stúlkur og konur í samfélagi þar sem hefðin sagði að konur ættu fyrst og fremst að sinna heimilisverkum og sjá um börnin. Hún á 11 börn og notar ágóðann af starfsemi sinni til að fæða og klæða börnin sín og til að tryggja þeim góða heilsu og menntun.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja