Úgandabúar eru um 46 milljónir talsins en nær helmingur þeirra er yngri en 15 ára. Þrátt fyrir að langflestir, um 80%, búi í sveitum landsins og lifi af landbúnaði flykkist fólk í síauknum mæli til höfuðborgarinnar Kampala í leit að betra lífi. Þar búa hins vegar um 700 þúsund  af 1,7 milljónum íbúa við sárafátækt.

Fátæktin rekur unga fólkið til þess að taka þátt í glæpagengjum eða jafnvel til að selja líkama sinn svo það eigi fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Aðstæðurnar gera það einnig að verkum að unglingarnir verða auðveldlega fíkniefnum að bráð. Heimsfaraldur af völdum kórónuveirunnar  hafði þær afleiðingar að slæmar aðstæður sem unga fólkið býr við versnuðu enn frekar.

Fjölbreytt nám og ný tækifæri

Þökk sé hjartahlýju fólki á Íslandi útskrifast ár hvert rúmlega 500 unglingar úr verkmenntasmiðjum í fátækrahverfum Kampala en Hjálparstarfið hefur frá byrjun árs 2017 rekið smiðjur með innlendum hjálparsamtökum sem heita Ugandan Youth Development Link, UYDEL. Smiðjurnar eru staðsettar í þremur hverfum höfuðborgarinnar Kampala. Þar er boðið upp á nám í tölvu- og farsímaviðgerðum, rafvirkjun, fatasaum og fataprjón, töskugerð, sápugerð, hárgreiðslu og förðun, eldamennsku og þjónastarfi.

Skipulagið er þannig að kennsla í iðngreinum er fyrir hádegi en boðið er upp á leiklist, söngnám og kórastarf, íþróttir og jafningjafræðslu eftir hádegi. Þar eru unglingarnir upplýstir um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Með fræðslu til stúlkna, en ekki síður til unglingsstrákanna, um smitleiðir kynsjúkdóma og um mikilvægi þess að nota smokk, verða stúlkurnar síður þungaðar og við það aukast lífsgæði þeirra umtalsvert.

Mikið er lagt upp úr því að styrkja sjálfsmynd og létta lund unga fólksins sem kemur úr ömurlegum aðstæðum í fátækrahverfunum en markmið UYDEL og Hjálparstarfs kirkjunnar er að gefa unglingum sem búa við örbirgð möguleika á mannsæmandi lífi.

Komast í starfsnám

Í venjulegu árferði hefur unga fólkið komist í starfsnám í fyrirtækjum eða það hefur komið sér upp eigin sölu- eða viðgerðarbásum. Félagsráðgjafar UYDEL hafa haft milligöngu um starfsnámið og fylgt krökkunum eftir og athugað hvernig þeim reiðir af eftir námið. Vegna heimsfaraldursins tókst þó ekki að koma unga fólkinu í starfsnám eins og áætlað var fyrir faraldur. Nú horfir til betra vegar en á seinni helmingi ársins 2021 komust t.d. 100 ungmenni á samning.

Verkmenntasmiðjurnar í Kampala eru reknar með frábærum stuðningi utanríkisráðuneytis og Hjálparliða sem styrkja starfið með reglulegu framlagi.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja