Fósturbörn á Indlandi

Fyrir 2.770 kr á mánuði getur þú stutt fátækt barn til menntunar og séð því fyrir fæði, fatnaði og húsaskjóli. Smáaurar á Íslandi nýtast margfalt í verkefninu en Íslendingar styðja nú 489 börn til náms í skóla Sameinuðu indversku kirkjunnar, UCCI, í Andhra Pradesh.

Vilt þú taka að þér barn?

Hringdu til okkar í síma 528 4400 eða komdu á skrifstofuna að Háaleitisbraut 66. Öll börnin sem eru á skrá hjá okkur eru komin inn í skólann og þú stendur því ekki frammi fyrir því að ákveða hver kemst í skóla og hver ekki. Hjálparstarfið sér um það og leitar síðan styrktarmanna eins og þín. Um þrjá styrktarmöguleika er að ræða fyrir fósturforeldra. Veldu það sem passar þér:

Grunnskólabarn á heimavist: Þú greiðir grunnskólanám, uppihald, eftirlit með heilsufari og heimavist hjá Sameinuðu indversku kirkjunni: 2.770 kr. á mánuði.

Framhaldsskóli eða iðnnám: Þú greiðir fyrir framhaldsnám eða iðnnám, uppihald, eftirlit með heilsufari og heimavist hjá Sameinuðu indversku kirkjunni: 4.070 kr. á mánuði.

Dagskólabarn: Þú styrkir grunnskólabarn til náms eins og börnin hér að ofan en dagskólabörnin búa nærri skólanum og fara heim að kvöldi: 1.870 kr. á mánuði.

Samskipti við barnið: Þú getur skrifað barninu þínu ef þú vilt. Það veltur á þínu frumkvæði. Börnin læra ensku í skólanum yfirleitt sem þriðja mál. Enska er gerólík móðurmáli þeirra svo þau eru nokkur ár að ná góðum tökum á henni. Þau skrifa því gjarnan fyrstu bréfin eftir forskrift en teikna myndir með. Einnig koma árlega skýrslur frá skólanum og getur þú þannig fylgst svolítið með framförum barnsins.

Hvernig er greitt? Smelltu hér til að ganga frá greiðslu á netinu. Þú getur greitt með greiðslukorti, sem er ódýrast í innheimtu og hentugast fyrir okkur, einnig getur þú fengið sendan gíróseðil en þá er lágmarksupphæð á hvern seðil 2000 kr. Mánaðarleg upphæð sem þú greiðir með barninu getur verið lægri en þá er greitt t.d. á tveggja eða þriggja mánaða fresti til að spara útsendingarkostnað. Þú getur líka hringt til okkar í síma 528 4400.

Þú getur hætt hvenær sem er
Engar kvaðir eru um að styrkja barnið í ákveðinn tíma. Þú getur hætt hvenær sem er en við biðjum þig að láta okkur vita með eins góðum fyrirvara og mögulegt er ef þú af einhverjum ástæðum verður að hætta. Barnið heldur áfram í skólanum á kostnað Hjálparstarfsins þar til nýtt fósturforeldri tekur barnið að sér. Bara eitt símtal eða tölvupóstur!

United Christian Church of India – UCCI

Á annað þúsund börn njóta skólagöngu á vegum UCCI og nokkur hundruð börn búa á heimavist. Hjálparstarf kirkjunnar styrkir börn á heimavist, dagskólabörn. í framhaldsskóla í bók- eða iðnnámi og í háskóla. Sameinaða indverska kirkjan rekur einnig lítið sjúkrahús þar sem börnin og fólk úr nágrenninu fá læknisþjónustu þurfi það á henni að halda. Börnin eru fæst munaðarlaus en sakir fátæktar og fordóma í garð stéttlausra komast fá í skóla og mörgum þeirra gengur illa. Komist börnin inn hjá UCCI opnast þeim möguleiki til betra lífs en stétt þeirra, fátækt og vankunnátta býður þeim. Auk þess er þeim um leið forðað frá óhóflegri vinnu, hungri og skorti á læknisþjónustu. Skólastarfið er því mikilvæg forvörn svo börn lendi ekki í vinnuþrælkun.

Viltu athuga með skattafrádrátt vegna framlaga? Smelltu á tengilinn og finndu greinar 15-18 á síðunni sem kemur upp.

Styrkja